Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:03]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mig langar að leiðrétta það því að mér finnst svo oft farið í þá orðræðu að ef við viljum ekki ganga í Evrópusambandið þá séum við bara á móti alþjóðasamstarfi og ætlum bara að vera ein úti á hafi. Við erum í miklu samstarfi við Evrópusambandið. Við erum í miklum alþjóðlegum tengslum. Við erum það. Það er ekki bara Evrópusambandið eða ekkert, nú þegar erum við í öflugu samstarfi við Evrópusambandið og fjölda annarra ríkja. Eins og var bent á í dag þá værum við með inngöngu í Evrópusambandið svolítið að afsala okkur því frelsi að geta gert tvíhliða samninga við önnur ríki.

Af því að hér var minnst á loftslagsmál og annað þá höfum við t.d. tekið upp ETS-kerfið, losunarkerfi Evrópusambandsins. Við erum að vinna eftir því hér, enda með eina stærstu flugumferðarstöð heims hér í Keflavík. Við getum unnið saman. Við getum stutt við okkar góðu mál og ég hafna því að ég tali ekki fyrir friði. Ég eyddi stórum hluta ræðu minnar að tala um að ég vil standa utan hernaðarbandalaga og við skulum líka átta okkur á því, af því að hv. þingmaður vísar í NATO, að meiri hluti Evrópusambandsríkjanna er í NATO. Og hvar er þessi lína? Hvenær eru þau að vígbúast og hvenær eru þau að efla varnir sínar? Ísland á ekki að taka þátt í hernaðarbrölti, punktur. Ég held að það sé nú bara mitt svar.