Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína og sjónarmið sem ég virði. Ég er sammála þeim hluta sem varðar frið. Við erum bara ósammála um leiðina að því hvernig við sjáum friðinn vera tryggðan til að mynda í Evrópu. Ég tel og undirstrika það að bæði skrefið okkar 1949 og síðan öll okkar skref sem við höfum tekið í alþjóðasamvinnu, hvort sem það er í gegnum EFTA, í gegnum markvissara EES-samstarf eða aðra fjölþjóðasamninga hafa styrkt okkur sem þjóð en líka aukið öryggi okkar. En það eru blikur á lofti núna og miklu meira en það. Það eru raunhæfar ástæður fyrir því að við verðum að skoða allar leiðir, m.a. þá að treysta þjóðinni fyrir því að ákveða hver okkar næstu skref verða í þessu mikilvæga máli sem ég tel að eigi mikið erindi til almennings. Við erum að tala raunverulega um almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Þetta er svona dæmigert mál til að undirstrika það. Ég treysti þjóðinni til að taka næstu skref og ég leyfi mér að binda vonir við það að þegar við erum búin að fjalla um þetta mál og fara yfir það í utanríkismálanefnd, við höfum drjúgan tíma núna í vetur, komum við því inn til umræðu hér í þinginu og til afgreiðslu. Mun hv. þm. Jódís Skúladóttir segja já við því að þjóðin fái þetta tækifæri eða mun hún segja nei við því að þjóðin fái að greiða atkvæði um þessa þingsályktunartillögu? Um það snýst málið. Þessi þingsályktunartillaga lýtur að því að þjóðin fái að ákveða næstu skref, þ.e. hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðum við ESB, spyrja þjóðina. Ef þetta kemur hingað til umræðu og atkvæðagreiðslu í þinginu, mun hv. þingmaður segja já við því að þjóðin fái að taka þetta skref eða nei?