Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:18]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er sjálfsagt munurinn á þeim flokkum sem fara fram með þessa tillögu og þeirra sem berjast gegn henni. Í öðru tilfellinu eru menn að segja: Mér finnst ekki vera tími og þess vegna vil ég ekki að þjóðin verði spurð, á meðan hinir segja: Látum þjóðina ráða. Þetta er munurinn á klassísku stjórnlyndi og forræðishyggju annars vegar — ég tel að þetta sé ekki rétti tíminn og þess vegna megið þið ekki kjósa — og hins vegar eru það hinir sem segja: Þjóðin, hvað finnst ykkur? Viljið þið halda áfram? Ég ætla að hvetja hv. þingmenn, þó að þeir séu í hjarta sínu ósammála því að það eigi að ganga í Evrópusambandið, að taka a.m.k. ekki valréttinn af þjóðinni sjálfri því að við erum öll hér í þessum þingsal algerlega sannfærð um það að við séum hér í umboði almennings og það sé fólkið okkar sem eigi að ráða för miklu meira heldur en flokkarnir sjálfir í sjálfu sér. Þetta er fulltrúalýðræði, vissulega, en það er gott og hollt að spyrja þjóðina og við eigum að þora það. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann til að koma með okkur í þá vegferð því hún þarf ekki að gefa neinn afslátt af skoðunum sínum. (Forseti hringir.) Þetta er bara spurning um að færa viljann til þjóðarinnar.