Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:19]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru líka kunnugleg stef. Ég hef verið spurð ítrekað hér í dag hvað hv. þm. Jódís Skúladóttir muni gera eða hvaða sýn hún hafi. Því hef ég reynt að svara af heiðarleika og festu. Ég er ósammála þeim hv. þingmönnum sem hér hafa farið í andsvar. Ég mun ekki beygja út af því eða verða eitthvað minni manneskja fyrir það að standa með minni sannfæringu. Ég held að við séum stödd núna nákvæmlega á þessum tímapunkti í 10, 15 ára gamalli umræðu um hvað eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Á að setja öll mál í þjóðaratkvæðagreiðslu? Á að setja sum mál? Hver á að ráða hvaða mál það eru? Er það ríkisstjórnin? Er það stjórnarandstaðan? Eru það þrýstihópar úr samfélaginu? Ég spyr af því að, eins og ég er margbúin að segja, ég held að það séu mörg stór mál sem fólk myndi vilja fá að hafa aðkomu að. (Forseti hringir.) Af hverju ætti Evrópusambandið að standa þar eitthvað sérstaklega upp úr?