Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:32]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Ég uppveðraðist öll við þetta tal hans um lýðræði og lýðræðislega háttsemi. Og af því að hann tekur hér Bretland sem dæmi, að breska þjóðin var spurð um afstöðu sína til útgöngu úr Evrópusambandinu, þá var staðan auðvitað sú að þjóðin var spurð að þessu af því að það var meiri hluti fyrir þeirri afstöðu að leggja það í dóm kjósenda. Staðan var ekki sú að þar væru stjórnmálamenn að berjast fyrir því í hrönnum, þ.e. sem voru andvígir útgöngu úr Evrópusambandinu, að þjóðin yrði spurð að þessu. Því langaði mig til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann væri virkilega svo forviða yfir því, a.m.k. eins og hann birtist okkur hér í ræðustól, að fá ekki stuðning fyrir því frá miklum meiri hluta þingmanna, stuðning við sína minnihlutaskoðun, að leggja af stað í einhverja ESB-vegferð á þeim grundvelli að það sé brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna í dag. Mér þykir þetta sjálfri ekki mjög lýðræðislegt en það er gott að vita af þessum viðhorfum hv. þingmanns og væntanlega auðfenginn stuðning við mál sem hann er fyllilega ósammála.