Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:36]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þessi forskrift frá þjóðinni, ég átta mig hreinlega ekki á því í hvað hv. þingmaður er að vísa. Mér vitanlega þá er forskriftin frá þjóðinni sem við höfum fengið hér á þingi sú að rétt rúmlega fjórðungur kjósenda kaus með ESB-flokkunum á þingi í síðustu kosningum. Það er umboðið sem við höfum hér. Það er forskriftin sem við vinnum eftir frá íslensku þjóðinni. Við virðumst ekki vera á sömu blaðsíðu varðandi það eftir hvaða umboði og eftir hvaða forskrift við vinnum frá íslensku þjóðinni.

Hitt sem mig langaði að nefna hérna í seinni umferð er umræðan um utanríkispólitík og breytta heimsmynd. Mér þykir það mjög villandi að ræða um varnarmál af miklum þunga í tengslum við aðild að ESB og ég er búinn að fara yfir það ítrekað í máli mínu hér í dag. Við höfum sannarlega breytt verklagi og aukið varnarsamstarf í kjölfar innrásarinnar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé fyllilega ómeðvitaðar um þessar aðgerðir sem við ráðumst í, e.t.v. svo upptekinn af þessu fyrirhugaða, mikla varnarhlutverki ESB, sem virðast vera miklar væntingar um hjá ESB-sinnum hér á þinginu. Við höfum m.a. aukið þátttöku í NATO og umsvif okkar þar. Við höfum aukið norrænt samstarf. Við höfum aukið samstarf okkar við norðurhópinn. Við höfum sett aukinn þunga í varnarsamstarf okkar við Bandaríkin, m.a. með samtölum þar um. Við höfum gert samkomulag við Danmörku um aukið öryggis- og varnarsamstarf og þannig mætti lengi telja. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé fyllilega ómeðvitaður um þessar aðgerðir sem við höfum ráðist í vegna breyttrar heimsmyndar.