Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:38]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Varðandi þessa auknu áherslu á varnarmál þá, eins og ég kom inn á í ræðu minni, er það bara einhver fasi sem allir eru að fara inn í og það er auðvitað gott og blessað að við séum með alla anga úti í því. Ég er hins vegar að benda á að hryggjarstykkið í þessu eru tvær einingar; annars vegar NATO, sem við erum blessunarlega í, þótt ríkisstjórnin sé reyndar ekki alveg heils hugar í því hvort Ísland eigi að vera í NATO eða ekki, og síðan er það Evrópusambandið. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvert stjórnarliðar eru að fara í þessu máli, verð ég að segja, vegna þess að í ræðu hér rétt áðan mátti skilja á öllu að Evrópusambandið væri svo slæmt að það væri nánast orðið eins og einhver einn allsherjarher, það væri verið að vígbúast og orðinn svo rosalega mikill viðbúnaður hjá Evrópusambandinu að við gætum ómögulega farið þarna inn, og svo er hins vegar verið að tala um að tannleysið í varnarhagsmunum sambandsins sé svo mikið að það taki því ekki að fara þarna inn. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á því hvorum megin þetta liggur. En ætli þetta sé ekki einhvers staðar beggja blands. Það er gott að vera í NATO. Það er gott og við eigum á öllum mögulegum póstum að tryggja varnir okkar og stöðu okkar í þessum viðsjárverða heimi sem við erum að horfa á. Evrópusambandið er þar bara ein eining af mörgum. Þar er ég sammála hv. þingmanni.

Síðan langaði mig að hrósa hv. þingmanni fyrir það, af því að ég komst ekki í það í ræðu minni, að hafa nefnt þetta sem er okkur óskaplega erfitt, þ.e. að Evrópa er háð Rússum um gas og olíu og það sé ekki gott. Ég er svo hjartanlega sammála því, við þurfum að gæta okkar, öll ríki og ríkjasambönd, við hverja viðskiptahagsmunirnir bindast. Mér finnst að við Íslendingar ættum að taka svolítið til hjá sjálfum okkur í því og velta því fyrir okkur hvort það sé gott fyrir okkur að vera með svona mikla hagsmuni sjávarútvegsfyrirtækja bundna til að mynda í Hvíta-Rússlandi, sem er auðvitað ekkert annað en nánasta, liggur mér við að segja, leppríki Rússa. Þetta er eitthvað sem ég held að ekki bara ríki Evrópusambandsins þurfa að hugsa um heldur ekki síður við Íslendingar. (Forseti hringir.) Það nær ekki bara yfir olíu heldur almennt yfir viðskiptahagsmuni. Við eigum helst ekki að snerta á harðstjórum með töngum.