Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:46]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vildi bara rétt koma hingað upp í lokin og þakka fyrir þessa umræðu sem er búin að standa yfir í sex klukkutíma og verið ansi fjörug á köflum og ætla ekkert að tefja þetta, ég sé að það er ung hv. þingkona á fyrsta bekk sem bíður eftir að koma og mæla fyrir máli. En ég vil þó ítreka það að í þessari þingsályktunartillögu felst fyrst og fremst það að þjóðinni sé gert kleift að veita okkur leiðsögn í málinu áfram. Auðvitað hefur þessi umræða hérna einskorðast töluvert af efnislegum deilum, með eða á móti og það er eðlilegt og auðvitað verður það að vera hluti af því ferli sem færi af stað. Meðal þess efnis sem þjóðin gæti horft til væri umræða hér á þinginu. En það þyrfti auðvitað að standa fyrir margvíslegri kynningu á málinu. Ég læt þessu lokið núna en þakka fyrir þessa umræðu og ég býst við að það hafi verið um þriðjungur þingmanna sem tók þátt með einum eða öðrum hætti.