Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína og þessa ágætu yfirferð varðandi skattbyrði. Nú hefur skattbyrði tekjulægstu hópa íslensks samfélags aukist ár eftir ár, stig af stigi, síðan 2013. Þetta hefur gerst vegna þess að persónuafsláttur fylgdi lengst af ekki launaþróun og bótafjárhæðir rýrnuðu, skerðingarmörk vaxta- og barnabóta hækkuðu ekki í takt við laun og hækkuðu ekki í takt við fasteignaverð í tilviki vaxtabóta. Þetta er auðvitað bara pólitísk ákvörðun. Þetta er kallað raunskattskrið og lýsir í rauninni bara þeirri leið hægri manna að hækka skatta á venjulegt fólk meðan skattbyrðin er svo lækkuð hinum megin hjá þeim tekjuhæstu og eignamestu. Lengst af var þetta eitthvað sem Sjálfstæðismenn viðurkenndu ekki að væri að gerast. Gott ef Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafi ekki staðið í ströngu við að leiðrétta allan málflutning um að skattbyrðin væri að aukast hjá lágtekju- og millitekjufólki. Það var talað um það sem einhvers konar náttúrulögmál, eitthvað sem hlyti að gerast ef það væri uppgangur í hagkerfinu. En mér hefur þótt svolítið athyglisvert síðastliðið ár að það er eins og Sjálfstæðismenn séu farnir að horfast í augu við að þessi þróun hafi orðið meðan þeir hafa stýrt fjármálaráðuneytinu. Í síðasta fjárlagabandormi var náttúrlega gerð sú breyting að persónuafslátturinn og viðmiðunarmörk tekjuskattskerfisins eru bundin við vísitöluhækkun verðlags að viðbættri áætlaðri framleiðniaukningu, sem er eitthvað sem ætti að halda að einhverju leyti aftur af þessu raunskattskriði. En þá sjáum við að það er gripið til þess ráðs að auka í raun óbeina skattheimtu og við sjáum alls konar áform um það í fjármálaáætlun (Forseti hringir.) og um leið sjáum við tilfærslukerfin okkar rýrna. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil bara spyrja hv. þingmann: Sér hv. þingmaður eitthvað samhengi þarna á milli?