Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

framhaldsfræðsla.

136. mál
[15:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki umfangsmesta frumvarp sem við höfum fengið inn í þessa sali en mig langar að fá eitt eða tvö atriði á hreint.

Í fyrsta lagi varðandi samráð sem farið er yfir hér í greinargerðinni þá er nefnt að áformin hafi verið kynnt öðrum ráðuneytum. Ég reikna með að um sé að ræða þau tvö önnur ráðuneyti sem eiga aðkomu að stjórn Fræðslusjóðs. Átti sér ekki stað sambærileg kynning gagnvart öðrum aðilum sem eiga aðkomu að þessari stjórn? Mér hefði þótt það eðlilegt t.d. í ljósi þess að aðkoma fjármálaráðuneytis er ekki beinlínis sem ráðuneyti opinberra fjármála heldur í krafti þess að það er einn stærsti vinnuveitandi landsins. Því er sæti fjármálaráðuneytis í stjórninni kannski sambærilegt sæti Samtaka atvinnulífsins eða Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Svo langar mig að spyrja hvar sú vinna standi að efla sí- og endurmenntun og að endurskoða löggjöf um framhaldsfræðslu, eins og talað er um í stjórnarsáttmála. Hefði kannski mátt bíða með þessa tæknilegu lagfæringu þangað til heildarendurskoðun væri lokið? Hvað knýr sérstaklega á um að klára nákvæmlega þessa breytingu hér og nú þegar fyrir dyrum stendur að gera heildstæðari breytingu á allri umgjörðinni, þá í nánu samráði við þá aðila sem að þessum málum koma?