Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurninguna. Hvaða einstaklingum er verið að hjálpa? Öllum, af því að þetta snýst um öryggi fólks, að allir hafi t.d. sama aðgengi að viðbragðsþjónustu í landinu, að fólk upplifi öryggi við að hringja í 112 í bráðatilfelli, eða ef það er heimilis- eða kynferðisofbeldi, eða hvað sem kemur upp á á stað þar sem verið er að nota vímuefni, þá þori fólk að sækja sér aðstoð, að fólk óttist ekki að lögreglan komi og refsi því. Það er eitt. Svo er einnig það að þeir sem eiga við mikinn vímuefnavanda að stríða fái aðstoð í heilbrigðiskerfinu. Við heyrum það frá notendum vímuefna, frá þeim sjálfum, þeir lýsa aðstæðunum sem þeir eru í sem vímuefnanotendur, að þeir upplifi sig bara sem annars flokks þegna í samfélaginu. Það eru gríðarlegir fordómar til staðar hjá lögreglunni, í heilbrigðiskerfinu. Þetta er allt að skána, fara á betri veg, en þetta lagast ekki fyrr en við hættum að stimpla þessa einstaklinga sem glæpamenn og kerfið hættir að koma fram við þessa einstaklinga sem glæpamenn.

Nýleg rannsókn frá Noregi sýndi að notendur vímuefna veigra sér við að hringja í neyðaraðstoð sökum ótta við lögreglu. Við vitum að þetta er eins hérna heima. Að hætta að stimpla fólk sem notar vímuefni, hætta að stimpla unga fólkið okkar sem notar, bara hætta að stimpla fólk sem glæpamenn, það er risastórt skref í því að útrýma fordómum gagnvart þessum hóp og tryggja að hann hafi jafnt aðgengi að aðstoð frá lögreglunni, frá heilbrigðiskerfinu og allir hinir í samfélaginu sem nota vímuefni en bara þau vímuefni sem samfélagið er búið að ákveða séu samfélaginu þóknanleg.