Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:05]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir sína framsögu í þessu máli sem ég er sammála. Ég er sammála hugsuninni og markmiðinu. Mér finnst líka skipta máli að halda til haga að þetta mál er ekki bara heilbrigðismál, þetta er líka frelsismál.

Ég get ekki sem einn af forsprökkum jafningjafræðslunnar á sínum tíma látið hjá líða að ræða aðeins um forvarnir. Ég vil þó taka fram að ég ber í engu ábyrgð á rauðeygða fíkniefnadjöflinum sem var minnst á áðan, alls ekki. Hins vegar held ég að við verðum í þessu samhengi að ræða þetta saman. Þrátt fyrir að við séum að ræða um refsistefnu sem er ekki bara tilgangslaus heldur líka ósanngjörn, við erum að tala um mál sem er heilbrigðismál, þá verðum við líka að horfast í augu við að við viljum kannski ekki endilega ýja að því að neysla þessi sé ekkert vandamál og æskileg öllum. Ég var því glöð að sjá að kveðið er á um að ábati þessa myndi fara í einhvers konar forvarnir og ég fagna því. Kannski hefði mátt vera aðeins skýrara hvernig það er hugsað.

Mig langaði að nefna aðeins skilgreininguna á neyslusköttunum. Ég hef séð í umræðunni undanfarið að þeim sem hafa verið að ræða þá skilgreiningu hefur verið brigslað um að drepa málinu á dreif. Ég átta mig ekki á hvort það sé bara mjög ódýr gagnrýni en ef ég tala fyrir mig þá langar mig aðeins að fá að spyrja út í það. Mér finnst nefnilega hinn endinn á því vera sá að efri mörkin eru refsiákvæði — ég er bara það mikill aðdáandi réttarríkisins að refsiákvæði verða að vera skýr þannig að mér finnst þetta verða að vera á hreinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni líði vel með það, að þetta sé nógu skýrt frá þeim endanum.