Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er svarið. Þetta er akkúrat það sama og mér finnst vera hægt að lesa út úr þessu. Það er áframhaldandi leikþáttur því það vill þannig til að það er hægt að leita í reynsluna með afdrif þessa máls. Það fer núna sinn veg inni í velferðarnefnd þar sem hægt verður að segja að nú sé ráðherra að koma fram með svona mál þannig að það sé óþarfi og tímasóun að vinna þetta mál. Svo kemur það mál ekki fram. Þá er búið að bíta enn eitt ár af þessu máli. Jú, það er hægt að svekkja stjórnarandstæðinga sem leggja fram þetta mál en þeir sem raunverulega líða fyrir það er fólkið sem á töluvert undir því að þetta sé klárað. Þetta er orðin svolítil sorgarsaga.

Mig langar kannski í lokin, í seinni umferð minni hér, að nefna skilgreininguna á neysluskömmtum. Ég ætla ekki að kalla það leikþátt, ég get alveg skilið það og það er hlutur sem ég velti sjálf fyrir mér. Það kom líka fram í ræðu hv. þm. Tómasar Tómassonar að það sé eitthvað sem óskað er svara við. Í þessu máli er vísað í önnur lönd sem hafa leyst þetta. Ég á erfitt með að átta mig á því af hverju það er svo gríðarlega flókið fyrir okkur að skilgreina nákvæmlega neysluskammta, sem þarf að gera til að málið gangi upp, meðan aðrir hafa leyst þann leyndardóm lífssögunnar. Í þokkabót er það jú í höndum ráðherra að setja slíka reglugerð þannig að það er eiginlega með þessu máli verið að biðja þingið um að gefa boltann yfir á ráðherra. Er ekki rétt skilið að hann geti gert þetta? Mig langar að fá aðeins fram hugleiðingar hv. þingmanns, af því að ég veit að hún þekkir þessi mál vel, um þessi vandræði með íslenska neysluskammta.