Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[18:41]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, sem ég verð að viðurkenna að ég heyrði aðeins brotakennt því að ég var á hlaupum úr afmæli sonar míns til að reyna að ná þessari umræðu hér. Mig langar fyrst til að spyrja hv. þingmann, til að verða ekki fyrir aðkasti og vera ekki að bera rangar sakir upp á neinn, hvort ég hafi heyrt það rétt að ég hef heyrt hana að lýsa því hér áðan að það væri áherslumál, til að taka á þeim heilbrigðisvanda sem fíknisjúkdómar eru, að taka betur utan um þetta fólk, faðma eða veita þeim hlýju og hjálpa þeim á fætur þannig að það myndi svona smátt og smátt losna úr viðjum fíknarinnar. Ef ég gæti fengið hv. þingmann til að byrja með að svara því, svo ég fari örugglega með rétt mál. (ESH: Já.) Það er rétt eftir haft. Við þurfum ekki einu sinni að skiptast á ræðupúlti til þess. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann að því hvers konar skilaboð þetta eru til aðstandenda einstaklinga með vímuefnavanda, að þegar þeir eru að glíma við þennan hryllilega og banvæna sjúkdóm sem fíknisjúkdómur er, sem Píratar kalla á tyllidögum heilbrigðisvandamál, að þeir þurfi bara að faðma þetta fólk betur, faðma þetta fólk fastar, hjálpa því á fætur — hvers konar skilaboð eru þetta til aðstandenda fólks með vímuefnavanda?