Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[18:47]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir svar sitt. Ég er sammála. Við eigum ekki að refsa fólki, alveg eins og við refsum ekki fólki sem er með krabbamein. Við refsum ekki fólki, við erum bara að styðja fólk. Við styðjum fólk í krabbameinsmeðferð, við styðjum fólk þegar það kemur með veik börn á barnaspítala. Við styðjum það, við styðjum fólkið og við eigum að styðja aðstandendur miklu betur. Ég er fullkomlega sammála, það þarf að gera eitthvað til að styðja aðstandendur og þá sem eru með fíknisögu og allt þetta. Það er náttúrlega enginn sem grípur það fólk frekar en aðstandendur fólks með mikla og alvarlega geðsjúkdóma. Það veit ég vel. Það sem þetta snýst um er að þegar ég hitti fólk með fíknisögu, og við skulum aðeins pæla í því, þá eru allir ólíkir, það er ein manneskja með fíknisögu en hún er allt öðruvísi en hjá næstu manneskju við hliðina. Þetta eru allt einstaklingar með sína eigin sögu, hvernig sem hún er, alveg eins og í öllu öðru. Þú getur verið með einstakling sem lendir í svakalegu áfalli bara við að vera tekinn af lögreglunni. Það er áfallið sem gerði það að verkum að viðkomandi fór í neyslu. Það er til. Það er til ungt fólk sem sér ekki fram á veginn vegna þess að lögreglan hefur haft svo mikil afskipti af því. Þau sjá ekki hvernig þau eiga að komast út úr skömminni yfir að hafa t.d. brugðist foreldrum sínum, að hafa átt sektir yfir höfði sér og fá kannski ekki bílpróf. Það getur verið gríðarlegt áfall fyrir unga manneskju, (Forseti hringir.) fyrir ungt fólk að lenda í þessu. Hver og einn hefur sína eigin sögu og þess vegna þurfum við alltaf að mæta þeim sem einstaklingum, ekki sem hóp.