Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

meðferð einkamála o.fl.

278. mál
[17:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um að ekki á að svipta fólk frelsi að ástæðulausu. Það er ekki markmiðið með þessari lagasetningu. Stundum liggur það ekki ljóst fyrir fyrr en alveg á síðustu stundu hver málsatvik hafa orðið og hvort tilefni er til að sækja um og rökstyðja frekara og lengra gæsluvarðhald. Það getur gerst á síðustu metrunum, sérstaklega ef gæsluvarðhald er kannski úrskurðað í viku, eins og við sjáum stundum gerast, en síðan tekur dómari sinn frest. Allir geta gert sér grein fyrir því hversu mikilvægir rannsóknarhagsmunir kunna að vera undir og það er ekki verið að tala um að nýta þessa viðbótarfrelsissviptingu, ef til hennar kemur yfir höfuð, sem einhvern langan frest heldur er hér um mjög tímabundinn frest að ræða sem þarf að sjálfsögðu að vera studdur sterkum rökum sem liggja til grundvallar framlengingu gæsluvarðhalds. Ég hef því ekki áhyggjur af þessu.

Annars er hv. þm. Helga Vala Helgadóttir í nefndinni sem fær þetta til umfjöllunar, ef ég man rétt, og hefur þar tækifæri til að spyrja meiri sérfræðinga en mig á þessu sviði út í þessi atriði.