Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

41. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég fór yfir í framsögu minni teljum við flutningsmenn frumvarpsins að það muni hafa í för með sér ýmsar réttarbreytingar sem er kannski erfitt að rekja á svona stuttum tíma, allt það sem við teljum að muni ávinnast. Mig langar til að nefna tvö tilvik varðandi það hvort áminningarferlið sé gott tæki fyrir forstöðumenn ríkisstofnana að beita. Það væri gaman að heyra sjónarmið hv. þingmanns til þess hvort hann honum þyki áminningarferlið vera gott stjórntæki. Við getum ímyndað okkur annars vegar starfsmann sem hefur varið starfsævi sinni hjá ríkinu, jafnvel verið þar áratugum saman, og sinnt starfi sínu af alúð en hefur misst áhugann og dagað uppi og væri betur kominn annars staðar. Væri þá ekki ákjósanlegt að forstöðumaður gæti gripið til annars úrræðis en að áminna viðkomandi? Áminning hefur yfir sér mjög neikvætt yfirbragð og það er þess vegna sem það er lítið notað, það færi þá á feril viðkomandi í stað þess að hægt væri að leysa úr málunum með öðrum og auðveldari hætti.

Ímyndum okkur starfsmann sem vissulega er mörgum kostum búinn og mjög metnaðarfullur fyrir sínu starfi en hefur t.d. ekki líkamlegt atgervi til að sinna starfinu mögulega vegna óvæntra atburða í sínu lífi. Gæti hv. þingmanni ekki fundist að það væri erfitt fyrir forstöðumann að vera í þeirri stöðu að þurfa að áminna viðkomandi til að hann færi úr því starfi sem hann var í, að kerfið væri einhvern veginn þannig að ef þetta snerist um atvik sem varða viðkomandi starfsmann sjálfan þá væri þetta eina leiðin til að leysa hann frá starfi?