Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

41. mál
[18:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann leggur hér fyrir mig tvær spurningar. Annars vegar spyr hann hvort það sé ekki réttast að jafna starfsréttindi fólks á almennum og opinberum vinnumarkaði. Hér held ég að við verðum að hafa hugfast að það er nú þegar samkvæmt lögum þannig að opinberir starfsmenn bera í mörgum tilvikum ríkari skyldur en starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Ég fór yfir þetta í ræðu minni áðan. Það eru ákveðnar stéttir sem eru ekki með verkfallsrétt, opinberir starfsmenn fórna að einhverju leyti tjáningarfrelsi sínu, jafnvel atvinnufrelsi sínu. Hjá sumum er mælt fyrir um refsiábyrgð fyrir að standa sig ekki í starfi. Það eru alls konar svona atriði sem ég held að við verðum að hafa í huga þegar við berum saman réttindi og skyldur fólks á almennum vinnumarkaði og opinberum vinnumarkaði.

Hvað síðari spurninguna varðar er það auðvitað þannig að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru ekki klöppuð í stein. Ég sjálfur mæli einmitt á næstu dögum fyrir frumvarpi um breytingu á þeim lögum. Það er alls ekki þannig að ég sé mótfallinn hvers kyns breytingum á starfsmannalögunum. Ég kalla hins vegar eftir því að farið sé varlega þegar verið er að skerða réttindi fólks og svo auðvitað að haft sé mjög víðtækt samráð við hagsmunasamtök þessa launafólks.