Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

41. mál
[18:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir framlagningu á þessu frumvarpi og verð að segja að því miður er ég ekki meðflutningsmaður þess að því en ég styð það svo sannarlega. Í mars síðastliðnum skrifuðu Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir og Hildur Ösp Gylfadóttir grein á Vísi sem ber heitið „Þegar leikreglurnar líkjast lönguvitleysu“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna kemur fram að brjóti starfsmaður af sér í starfi skuli stjórnandi veita viðkomandi áminningu. Áminning er viðvörun sem hefur þó ekki skýran gildistíma en oft er miðað við eitt til tvö ár. Brjóti starfsmaður sem áður hefur verið áminntur aftur af sér í starfi en með öðrum hætti teljast brotin ótengd. Því er ekki hægt að segja starfsmanni upp við fyrsta brot nema um skýrt lögbrot hafi verið að ræða. Þannig gæti starfsmaður orðið uppvís af kynferðislegri áreitni, mætt til vinnu undir áhrifum hugbreytandi efna, dregið að sér fé og haft viðhorfsvanda gagnvart samstarfsfólki allt innan árs en það kynni ekki að duga til uppsagnar á ríkisreknum vinnustað. Eins getur starfsmaður brotið af sér ítrekað með sambærilegum hætti en vegna tímalengdar milli brota nægir það heldur ekki til uppsagnar.“

Virðulegur forseti. Þetta rita þær stöllur sem eru stjórnendur hjá ríkinu um einmitt þessi lög sem hér er lagt til að breyta. Svona lýsingar eru ekki óalgengar og eru oft teknar sem dæmi í mannauðskúrsum uppi í háskóla þegar verið er að fjalla um það hvernig hægt væri að gera breytingar hjá starfsmönnum hins opinbera. Sjálf hef ég setið nokkra slíka kúrsa. Það er í rauninni alveg með ólíkindum að í löggjöfina skuli það skrifað inn með jafn skýrum hætti og er í þessum lögum hér, að áminna þurfi. Áminningin þarf líka að vera af sama toga. Ég held þess vegna að það sé löngu tímabært að ráðast í þær breytingar sem hér er vísað til og reyndin er auðvitað sú að það hefur svo margt breyst frá því að þessi lög voru sett. Hér hefur verið komið inn á það að almennt í vinnuvernd er auðvitað gerð krafa um einhverjar ástæður uppsagnar. Algengasta leiðin hjá opinbera geiranum er þar af leiðandi að fara í skipulagsbreytingar, sem eru mjög algengar. Oft er auðvitað full ástæða til að fara í skipulagsbreytingar, það getur alveg verið ástæða til þess. En oft er það því miður þannig að ráðast þarf í dýrar skipulagsbreytingar til þess að segja fólki upp. Það er staðreynd. Það vita allir að það er svoleiðis. En þetta verður miklu erfiðara þegar um er að ræða starfsmann sem verður ekki svo auðveldlega leystur af hólmi og við getum litið til skólanna til að mynda, þú gerir ekki skipulagsbreytingu og segir t.d. kennara upp. Jafn handviss og ég er um að langflestir starfsmenn hins opinbera séu að vinna vinnu sína vel og sinni störfum sínum af mikilli alúð, alveg eins og kennarar í skólunum, er ég líka ansi hrædd um að inn á milli leynist fólk sem er kannski aðeins orðið þreytt á vinnu sinni og ætti kannski að fara að snúa sér að einhverju öðru. Það væri örugglega bæði þeim til bóta og stofnuninni sem þeir starfa hjá að hægt væri að víkja þeim frá störfum með einfaldari hætti en slagaramminn gerir nú ráð fyrir. Þannig að ég held að það mál sem liggur fyrir hér sé löngu tímabært og vonast til þess að okkur takist að afgreiða það á yfirstandandi þingi.