Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vara við því að menn máli myndina dekkri en nauðsynlegt er. Nú er það þannig að leiguverð, a.m.k. fram til ágúst, hafði hækkað minna en íbúðaverð. Að því leyti hefur þróunin á leigumarkaði hvað verð varðar verið hagstæðari en á eignamarkaðnum eða kaupendamarkaðnum. Menn verða líka að hafa í huga að það eru auðvitað til upplýsingar um íslenskan leigumarkað. Vísitala leiguverðs íbúðarhúsnæðis er gefin út reglulega, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er með mjög góðar upplýsingar, (Gripið fram í.)er með ágætis upplýsingar, herra ráðherra, og við getum rætt það alveg sérstaklega ef þú vilt, Hagstofan gerir sínar kannanir o.s.frv. Menn geta líka unnið upp úr gögnum, þinglýsingargögnum, hafi þeir áhuga á því en það er auðvitað ákveðnum annmörkum háð.

Ég er einfaldlega að segja: Ef rökin fyrir því að menn ætli hér að skrásetja opinberlega einkaréttarlega samninga eru þau að þeir vilji bara fá meiri upplýsingar, hvar ætla menn þá að stoppa? Af hverju bara leigumarkaðurinn? Af hverju ekki vinnumarkaðurinn? Af hverju ekki bara almennt um hvað við erum að gera, einstaklingarnir í okkar frjálsa lífi? Við getum ekki fetað inn á þessa braut með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég vara við því vegna þess að þú veist hvar það ferðalag endar.