Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:20]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og biðst afsökunar. Ég svaraði mjög ráðherralega í fyrra andsvari og svaraði ekki spurningu þingmannsins heldur fór bara á flug með mínar hugleiðingar. Af því að hv. þingmaður spurði út í geðheilsuteymin og hvernig þau væru inni í heilbrigðisstofnununum þá lýtur þetta þingmál í raun að því að hafin verði uppbygging á húsakosti þeirra geðdeilda sem eru starfandi á Íslandi, þ.e. Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, ekki í rauninni annarra. Það eru einu geðdeildirnar sem eru fyrir inniliggjandi sjúklinga. Það sem er gríðarlega brýnt í þessu máli er að þeirri uppbyggingu og hugmyndavinnu, sem tillagan ber með sér að eigi að fara í, fylgi líka hugmyndafræðileg umpólun á þjónustu við fólk með geðrænar áskoranir. Ef við horfum á hvað er að gerast annars staðar í heiminum þá er þjónustan miklu nútímalegri. Og af því að hv. þingmaður talaði um þjónustu við börn og ungmenni sem glíma við geðrænar áskoranir þá get ég ekki annað en komið líka inn á þátt fjölskyldna, af því að þjónustan við fjölskyldur sjúklinga á Íslandi er svo ótrúlega ólík eftir því hvaða sjúkdóm um er að ræða. Ef náinn aðstandandi greinist með krabbamein er öll fjölskyldan tekin með; maki, börn, foreldri. Fjölskyldan er umvafin stuðningi. Því miður er því ekki fyrir að fara þegar um er að ræða geðrænar áskoranir, þvert á móti, og við höfum heyrt óteljandi frásagnir um að fólk, börn, foreldrar eða systkini séu skilin eftir. Við verðum að breyta því.