Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er á ferðinni þingmál undir forystu hv. þk. Helgu Völu Helgadóttur. Við í þingflokki Samfylkingarinnar flytjum það saman vegna þess að málið er mikilvægt, löngu tímabært og þarfnast afgreiðslu. Við erum að mörgu leyti 30 árum á eftir í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og eiginlega að öllu leyti þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu. Við verðum að fara að horfast í augu við það að lausnirnar sem boðið er upp á núna í heilbrigðiskerfinu eru ófullnægjandi og þær eru ekki að skila þeim árangri sem við þurfum að ná í þessari heilbrigðisþjónustu eins og annarri.

Tölur um veikindi, áskoranir og sjálfsvíg bera þess merki að íslensk geðheilbrigðisþjónusta er ófullnægjandi. Það segir ekkert um það góða fólk sem starfar í kerfinu, fagfólk og alla aðra sem starfa innan heilbrigðiskerfisins. Það segir hins vegar allt um það hvernig fé er ráðstafað til heilbrigðismála hér á landi og hvernig fé er ráðstafað innan heilbrigðiskerfisins til geðheilbrigðisþjónustunnar. Við höfum leyft þessum málaflokki að mæta afgangi árum og áratugum saman og sitjum nú uppi með þá stöðu, eins og hér hefur verið lýst, að geðdeildir Landspítalans eru í 50 ára gömlu húsnæði og Kleppur er 100 ára eins og allir vita.

Þetta er óboðlegt og sæmir ekki þjóðfélagi sem telst til ríkustu landa í heimi. Þetta afhjúpar ótrúlegt viðhorf til þess fólks sem glímir við geðsjúkdóma. Ég vona að þessi tillaga, sem lætur kannski ekki mikið yfir sér en er algjörlega bráðnauðsynleg, fái snögga umfjöllun og afgreiðslu í þingnefndinni og gangi þar beint til hæstv. heilbrigðisráðherra. Eins og allir vita er verið að byggja upp nýjan Landspítala við Hringbraut, verið er að byggja nýtt sjúkrahús, svokallaðan meðferðarkjarna, og eru þetta miklar framkvæmdir sem sannarlega er og var þörf á. Eins og hér hefur verið bent á þá var einhvern tíma í þessu ferli, margir hafa tekið þátt í því, tekin sú ákvörðun að ekki þyrfti að byggja upp geðdeildir á sama tíma. Það þýðir ekki bara að við verðum að hefja þessa vinnu núna heldur verðum við að flýta okkur hratt. Við verðum að setja niður áætlun um hvernig við byggjum nýjar geðdeildir, hvenær þær rísa, hvar þær eiga að vera og hvernig þær eiga að vera. Þetta kallar auðvitað á samráð og samvinnu við sjúklinga, fagstéttir og aðstandendur, eins og hér hefur komið fram, og ég ætla að leyfa mér að lýsa þeirri persónulegu skoðun minni að ég er ekki viss um að umhverfi Hringbrautarinnar í Reykjavík sé besta umhverfið fyrir slíka starfsemi. Þá vil ég bara vísa til þess sem hér hefur verið nefnt um miklar framfarir í uppbyggingu geðdeilda í nágrannalöndum okkar og það hvernig sýnt hefur verið fram á að gott umhverfi, falleg náttúra, gróður, dýralíf og útivist stuðlar beint að betri heilsu. Fólk nær betur heilsu, líður betur og það vill bara þannig til að fólki líður betur í náttúrunni en í manngerðu umhverfi. Það á bæði við um okkur sem eigum að kallast hraust og líka þau sem glíma við margs konar sjúkleika.

Þess vegna þarf að hugsa hratt, vinna hratt og afgreiða þessa tillögu. Við verðum að taka höndum saman um það hér í öllum þingflokkum að við sjáum til þess að bæði verði veitt fé á fjárlögum og sett í forgang að reisa nýjar geðdeildir. Sú vinna verður að hefjast meðfram byggingu nýs Landspítala. Við verðum að vera tilbúin miklu fyrr með nýjar geðdeildir en hér hefur verið talað um beint og óbeint árum saman. Það er fyrir löngu kominn tími til að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði uppfærð og komist inn í samtímann, komist inn í nútímann og verði sú besta sem völ er á.