Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[13:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hér voru ansi mörg stór orð látin falla sem er ekki alveg fótur fyrir, því miður. Það er þannig að vissulega er PISA stórt og fyrirferðarmikið rannsóknarverkefni en það er ekki alveg sérhæft fyrir íslensku. Eiríkur Rögnvaldsson talar t.d. um þetta í pistli hjá sér, með leyfi forseta:

„En hvernig er staðan hjá okkur? Engar upplýsingar um orðaforða mismunandi aldurshópa eru til fyrir íslensku. Við höfum með öðrum orðum ekki hugmynd um það hvaða orð er eðlilegt að 15 ára unglingar hafi á valdi sínu. Er t.d. eðlilegt að ætlast til að þeir þekki orðið skeið í merkingunni 'tímabil', svo að tekið sé dæmi úr PISA 2018?“

Ef við erum ekki með þetta þá getum við ekki gert próf sem mæla það í raun og veru hvernig samanburður þeirra er við jafnaldra í öðrum löndum.

Önnur gögn sem færa rök fyrir því að málið sé ekki svona slæmt eins og látið er hljóma hérna og niðurstöður PISA gefa til kynna er að alveg frá árinu 1990 og fram til ársins í dag hefur fólki fjölgað, bæði körlum og konum, í háskólanámi, brautskráðum úr háskólanámi, umfram fólksfjölgun, strákum líka. Þrátt fyrir þetta gríðarlega vandamál þá fjölgar þeim samt brautskráðum úr háskólanámi. Það eru aðrar skýringar mögulegar á þessum tölum heldur en að þetta sé lausnin, langt frá því.

Ég hef farið aðeins yfir þessa grein, með leyfi forseta, Breaking the code, að brjóta lestrarkóðann. Það er áhugaverð grein svo sem út af fyrir sig en hún er enginn heilagur sannleikur í þessu. Konan mín gerir t.d. lesblindurannsóknir. Þar hefur verið gríðarlega erfitt að koma í gegn í þeim skilningi að það snýst ekki bara um hljóðfræði ef fólk er með lesblindu, það eru miklu flóknari gallar eða erfiðleikar þar á bak við, þannig að við skulum bara fara rosalega varlega, þegar við vitum að mælikvarðinn er gallaður, við að koma með yfirlýsingar um að allt sé ómögulegt.