153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

heilbrigðisþjónusta vegna endómetríósu.

[15:40]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrir tíu mánuðum síðan lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um meðhöndlun endómetríósu. Sjúkdómurinn getur valdið sárum verkjum og ófrjósemi og hrjáir allt að 10% kvenna. Svarið barst frá hæstv. ráðherra í byrjun þessa árs og þar kom fram að biðtími sjúklinga með endómetríósu eftir fyrsta viðtali og aðgerðum væri langur og langt umfram viðmiðunarmörk landlæknis um ásættanlega bið eftir heilbrigðisþjónustu. Í síðustu viku birtu Samtök um endómetríósu lista með upplýsingum um 40 konur sem eru sagðar hafa neitað að bíða lengur á biðlistum opinbera heilbrigðiskerfisins eða höfðu fengið þar ófullnægjandi þjónustu og hafa því greitt einkaaðilum háar fjárhæðir úr eigin vasa fyrir aðgerðir. Í ákalli til hæstv. heilbrigðisráðherra segja samtökin það vera nöturlega staðreynd að aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á Íslandi fari því eftir efnahag. Í svari hæstv. ráðherra við áðurnefndri fyrirspurn minni sagði hann að það væri til skoðunar í ráðuneyti hans hvernig væri hægt að efla þjónustu við sjúklinga með endómetríósu.

Virðulegi forseti. Mig langar því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvort þessi staða sé ásættanleg. Ég myndi vilja fá svar frá hæstv. ráðherra um það hvernig unnið hafi verið að styttri greiningartíma og styttri biðtíma eftir meðhöndlun endómetríósu, þar með talið eftir aðgerðum, á þeim tíma sem er liðinn frá því að hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn minni í byrjun þessa árs.