Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Fátækt er viðhaldið með lágum bótum, með skerðingum, með vanfjármögnuðu menntakerfi, félagsstoðkerfi, heilbrigðiskerfi. Fátækt er viðhaldið með því að leyfa taumlausa samþjöppun auðmagns og eigna í höndum fárra. Fátækt er viðhaldið með því að takmarka aðgengi fátæks fólks að hollum mat, góðum klæðnaði og þaki yfir höfuðið á réttlátu verði. Þetta eru allt saman pólitískar ákvarðanir og allar þessar ákvarðanir eiga sameiginlega uppsprettu, gildismat sem hampar þeim sem eiga og mega og hlunnfer þau sem eiga um sárt að binda.

Það er pólitísk ákvörðun, forseti, að viðhalda fátækt og hún sprettur rakleiðis upp úr þessu brenglaða gildismati þar sem skert þjónusta og þröngar reglur um skerðingar í framfærslukerfum eru látnar viðgangast og stuðla þannig að vaxandi ójöfnuði. Það er einmitt þessi hugmyndafræði sem veldur og viðheldur fátækt, hugmyndafræði sem setur fjármagn og fyrirtæki fyrst en fólkið síðast, sem fórnar lífsgæðum, velsæld og hamingju fyrir framleiðslu og hagvöxt; hugmyndafræði sem byggir á því að markaðurinn sé einhvern veginn heilagur og ávinningur verði aðeins skilgreindur í krónum og aurum.

Fátækt er einkenni skaðlegrar hugmyndafræði, forseti. Og við upprætum ekki fátækt án þess að bera kennsl á og tækla þær undirliggjandi hugmyndir og spyrja okkur hvort þær séu í takti við nútímaþekkingu, hvort þær séu í takti við það sem við vitum í dag um mannlega hegðun. Ég ætla að leyfa mér að segja: Nei, þær eru í engum takti við það. Fátækt er ekki skömm einstaklingsins sem lifir við hana, fátækt er skömm samfélagsins og stjórnmálafólks sem viðheldur henni. Ábyrgðin er okkar, að endurskoða samfélagsgerðina með gagnrýnum augum og opnum hug. Um það snýst velferð framtíðarinnar.