Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eftir hvern Íslending liggja um 24 kg af rafrusli á ári. Samtals gera það ríflega 9.000 tonn af íslensku rafrusli árlega. 9.000 tonn af gömlum prenturum, tölvum, tækjum og símum, raftækjum framleiddum úr fágætum málmum og alls konar efnum sem hafa í för með sér stórkostleg umhverfisáhrif. Íslendingar eru í þriðja sæti miðað við höfðatölu þegar kemur að því að henda rafrusli á heimsvísu en einungis 17% af afrennsli heimsins rata í fullnægjandi endurvinnslu.

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, segir að við séum á öld hámarksframleiðslu allra málma sem notaðir eru í tæknina okkar. Hún sagði svo fallega í fréttum: Þess vegna þurfum við að læra að elska það sem við eigum, gera við það og vera ánægð þegar það er hægt.

Ég held að þetta eigi við um flestallt sem viðkemur neyslu okkar. Að mati Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna tapast um þriðjungur matvæla sem framleidd eru til manneldis eða er sóað. Sóunin er verst í umgengni við ávexti og grænmeti. Um 45% fara þar til spillis. Ímyndið ykkur að henda annarri hverri gulrót eða öðru hvoru epli. Ímyndið ykkur að bera þrjá poka af matvælum út úr búð og henda strax einum þeirra í næsta gám. Þetta fyrirkomulag getur ekki verið sjálfbært. Við þurfum enga útreikninga til að sjá það. Ég get tekið dæmi um textíl, innanstokksmuni og margt fleira þar sem sama er undir. Þetta getur ekki haldið svona áfram.

Lög um hringrásarhagkerfið taka að fullu gildi um næstu áramót og snúa að meðhöndlun úrgangs, endurnýtingu, flokkun og endurvinnslu. Það er mikilvægt skref í rétta átt en við neytum of mikils og hendum of miklu. Við þurfum öll að líta í eigin barm, þora að taka umræðuna og gera svo miklu betur.