Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

273. mál
[19:05]
Horfa

Flm. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst aðeins verið að snúa út úr. Það er frekar augljóst af orðalagi greinargerðarinnar að hér er verið að vísa til ásýndar skipunarinnar sjálfrar og þess ferlis sem þar fer fram. Það er ekki verið að útiloka það að einhver geti orðið ráðuneytisstjóri sem hefur einhvern tímann tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks. Ég held að það sé ansi langsótt að túlka þessi orð þannig þegar öll umfjöllun í greinargerðinni snýst um það ferli sem á sér stað þegar verið er að ráða fólk og skipa í opinber embætti.

Annars vil ég taka undir með hv. þingmanni að það togast auðvitað á sjónarmið þegar rætt er um lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og skipanir almennt í opinbera kerfinu. Annars vegar togast á sjónarmið um réttindi fólks, að fólk geti treyst því að verið sé að beita veitingarvaldi með heiðarlegum og sanngjörnum hætti, og hins vegar um svigrúm, skilvirkni o.s.frv., m.a. þegar kemur að því að setja upp ný ráðuneyti og annað slíkt. Ég hygg að þetta frumvarp feli í sér mjög gott jafnvægi milli þessara sjónarmiða. Það er ekki verið að leggja til að 36. gr. falli brott eða neitt slíkt. Það er heldur ekki verið að leggja einhverjar sérstakar kvaðir á veitingarvaldshafa við beitingu 36. gr. almennt, heldur er einvörðungu verið að taka ákveðna embættismannaflokka út fyrir sviga og ákveða að þar sé við hæfi að auglýsingaskyldan sé algerlega fortakslaus.