Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Læknafélagið lýsir yfir neyðarástandi í heilbrigðiskerfinu. Landspítalinn segist þurfa að skerða þjónustu á næsta ári og áfram siglir hæstv. ríkisstjórn. Fjárheimildir eru uppfærðar kerfislægt í þröngum ramma fjármálaráðuneytisins, borgað er fyrir skýrslur og vinnuhópa. Ekkert af þessu er nýtt, ekkert breytist. Við erum föst í spennitreyju sem þrengist og þrengist. Ótti við að stíga alvöruskref í fjármögnun heilbrigðismála er augljós. Ráðamenn hafa misst sjónar á heildarmyndinni. 110 einstaklingar liggja á legudeild þjóðarsjúkrahússins vegna plássleysis á hjúkrunarheimilum. Fólk sem byggði landið eyðir nú síðustu dögum sínum á spítalagöngum. Orka starfsfólks á þjóðarsjúkrahúsinu fer í umönnun utan starfssviðs þess á sama tíma og rekstur hjúkrunarheimila er vanfjármagnaður. Starfsfólk á spítala er gagnrýnt fyrir minnkandi framleiðni þegar afgerandi skortur á heildarsýn í heilbrigðiskerfinu gerir fólki beinlínis ókleift og ófært að sinna sínum verkefnum.

Það er ekkert í fjármögnunaráætlunum stjórnvalda sem veitir heilbrigðisstarfsfólki von um að þessi klemma leysist í bráð. Lausn hæstv. fjármálaráðherra á þessum vanda er að horfa til einkareksturs. Höfum eitt á hreinu, virðulegi forseti: Einkarekstur er fjármagnaður af skattfé almennings. Þetta er ekki fundið fé. Hvað er planið hjá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra? Á núna að endurskilgreina hlutverk þjóðarsjúkrahússins sem legudeild ríkisins og beina aðgerðum og klínískri þjónustu annað? Það mun kosta að rjúfa þennan vítahring fjármögnunar á heildarsýn fyrir heilbrigðiskerfið í formi hjúkrunarheimila, heimahjúkrunar og sjúkrastofnana, en það sem hæstv. ríkisstjórn þorir ekki að segja þjóðinni eða skilur e.t.v. ekki sjálf er að þetta mun kosta, hvort sem við tökum ákvörðun um það eða ekki. Spurningin er bara sú hversu marga þjóðfélagsþegna hæstv. ríkisstjórn ætlar að brenna á leiðinni til að hlífa sjálfri sér frá ákvörðunum.