Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í málefnum flóttafólks hefur verið talað um nauðsyn þess að tala um staðreyndir málsins og hafa yfirvegaða umræðu. Meðal þess sem þar er notað er að verið sé að misnota hælisleitendakerfið. Það er rangt. Það er verið að misnota hælisleitendur. Sönnunarbyrðin er á flóttafólki sem kemur hingað. Það þarf að sanna nauðsyn sína fyrir vernd og sú sönnunarbyrði er mjög þung. Ríkið leggst í mikla rannsóknarvinnu, t.d. staðhátta- og tungumálapróf sem er alls ekki auðvelt. Þau sem hafa fengið vernd hafa því náð að útskýra aðstæður sínar það vel að íslensk stjórnvöld eru sannfærð um neyð viðkomandi.

Hér áðan var tekið dæmi um Grikkland. Flóttamannabúðirnar þar eru vissulega þokkalegar en eftir að fólk fer úr flóttamannabúðum hefur það í færri skjól að venda. Það fer ekki aftur þangað inn. Við erum í þeim aðstæðum núna að þau sem tala einna mest um að það þurfi að vera staðreyndamiðuð umræða á yfirveguðum nótum eru líka að tala um „misnotkun á hælisleitendakerfinu“ og eru líka að tala um „neyðarástand á landamærum“. Að sjálfsögðu er það vegna stríðs í Úkraínu.

Á undanförnum árum, fyrir stríðið í Úkraínu, hafa u.þ.b. 300 verið að sækja um hæli hérna sem hafa ekki fengið það en rúmlega 800 hafa fengið hæli. Það voru 96% þeirra sem sóttu um árið 2020 sem fengu hér hæli. Þau voru búin að sanna það fyrir íslenskum stjórnvöldum, íslensk stjórnvöld voru sannfærð um að þetta fólk þyrfti á neyðarhjálp að halda, þyrfti á vernd að halda. Samt er einhvern veginn verið að tala um neyðarástand vegna 300 manns sem vegna ýmissa ástæðna, (Forseti hringir.) slæmra og góðra, ná ekki að sannfæra íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) um að þau þurfi á vernd að halda.

Við þurfum að tala um staðreyndir en flestir þeir (Forseti hringir.) sem tala um að það þurfi að hafa staðreyndamiðaða umræðu eru ekki að nota staðreyndir máli sínu til stuðnings.