Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hafa lífeyrissjóðirnir áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins en nákvæmlega hver þau áhrif eru getur verið breytilegt frá einum tíma til annars. Á meðan lífeyrissjóðirnir eru í því ferli að auka við erlendar eignir sínar þá er útstreymi. Á einhverjum tímapunkti næst hins vegar jafnvægi og sá tímapunktur mun koma að lífeyrissjóðirnir fái minna inn í sjóðina heldur en þeir greiða út. Þá getur aftur tekið við hið gagnstæða, þ.e. mikið innflæði eigna að utan. Það eru breytur eins og þessar sem þarf að hafa í huga þegar við tökumst á við þá áskorun sem það vissulega er að halda úti frjálsum gjaldmiðli í tiltölulega litlu hagkerfi sem er svona vel fjármagnað eins og okkar, sérstaklega í þessu lífeyristengda samhengi. Mér finnst ástæða til að nota tækifærið hér og minna á að við erum í raun og veru að ræða hér um ákveðið lúxusvandamál.