Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið og verð bara að segja að ég er innilega ósammála honum. Í sjálfu sér getum við haft ýmis rök fyrir því hvernig við gerum hlutina en við erum að tala um að nýta peningana strax. Við erum að taka ákveðna upphæð og ætlum síðan að eyrnamerkja hana fyrir ákveðinn hóp (Gripið fram í.) til þess að ákveðinn hópur geti haft það gott í dag, vegna þess að við vitum að hann hefur það ekki gott og það er engin trygging fyrir því að ekki verði svipað stór hópur eða stærri í framtíðinni sem hefur það líka skítt þó að við séum með þetta kerfi. Við erum þó alla vega að reyna að fjármagna þetta kerfi. Við getum tekið borgaralaun sem Píratar hafa beðið um. Það þyrfti að taka þá peninga einhvers staðar frá. Við erum alla vega með einhverja lausn á því að finna peninga til að bæta kerfið í dag.

Varðandi ávöxtunina, hvort þú ert með 100 milljarða í ávöxtun eða 70 milljarða í ávöxtun — það er bara sama málið (Gripið fram í.) þannig. Að vísu er meiri ávöxtun þarna um að ræða. Það eru kannski hærri fjármunir. En á sama tíma erum við að gera hvað? Segjum t.d. að við myndum nýta þessa peninga til þess að fólk gæti lifað aðeins heilbrigðara lífi, gæti keypt sér betri mat, þyrfti minni læknisþjónustu og því væri ekki eins mikið álag á heilbrigðiskerfið. Við myndum kannski spara okkur hellings pening á því. (Gripið fram í.) Við vitum það ekki. Við þurfum líka að eiga fjármuni. Í dag er ríkissjóður rekinn með tapi þannig að við sjáum ekki fram á að það verði settir peningar í að fólk verði skattlaust eða að heilbrigðiskerfið verði tekið í gegn eða neitt. Það vantar fjármuni og það er alltaf sagt: Ef við ætlum að reyna að bæta kjör þessara einstaklinga þá verðum við að finna peninga einhvers staðar. Þarna erum við að finna peninga, (Gripið fram í.) einmitt til að hjálpa þessu fólki.