Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:38]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum í grunninn ekkert ósammála um lífeyriskerfið. Við viljum báðir hafa sterkt lífeyriskerfi sem getur þjónað þeim sem það á að þjóna. Okkur getur greint á um tiltekin atriði en ég held að í grunninn séum við nokkuð sammála um hlutverk og tilgang lífeyriskerfis.

Varðandi fjölda lífeyrissjóða þá verðum við líka í grunninn að gera okkur grein fyrir hvaðan við komum. Lífeyrissjóðir voru stofnaðir af vinnandi fólki á sínum tíma, í gegnum stéttarfélög og kjarasamninga. Lífeyrissjóðir voru starfsgreinaskiptir, verslunarmenn bjuggu til Lífeyrissjóð verzlunarmanna, eða svæðisskiptir. Það var til eitthvað sem hét Lífeyrissjóður Suðurnesja sem var stofnaður af verka- og iðnaðarmönnum á Suðurnesjum og gekk síðan inn í stærri sjóð sem heitir Festa lífeyrissjóður. Hreyfingin hefur verið að búa til þetta lífeyriskerfi smátt og smátt. Ég held að við séum ekkert komin á leiðarenda í þeirri þróun að sameina lífeyrissjóði, ekki frekar en að sameina stéttarfélög eða sveitarfélögin. Við erum á þessari vegferð, að sameina lífeyrissjóði. Þeir hafa sameinast. Ég ætla ekki að tjá mig endilega um það hvort þeir séu of margir en ég held það gæti verið ákveðið hagræði í að sameina fleiri lífeyrissjóði. Þeir eru margir hverjir orðnir ansi stórir en það eru svona starfsgreinasjóðir sem hafa ekki haft bolmagn til að þjóna félagsmönnum sínum. Varðandi kostnaðinn þá held ég að ég hafi aldrei farið á ársfund lífeyrissjóðs. Ég hef aldrei fengið boð um það og aldrei verið fulltrúi þar. (Forseti hringir.) En ég held að það sé hægt að krefja lífeyrissjóði um að sýna bókhaldið sitt.