Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu hér. Ég veit að hann hefur ágæta þekkingu á þessum málaflokki og hefur starfað í þessum geira og fjármálageiranum. Við heyrðum það sérstaklega þegar hv. þingmaður ræddi ávöxtunina að þar talar hann af þekkingu og var ánægjulegt að hlusta á hans ræðu. Þar sem ég vildi aðeins koma inn á er einmitt ávöxtunin erlendis. Hér er verið að greiða fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti meira erlendis, ávaxti fé sjóðsmanna meira erlendis. Það er margt jákvætt við það og frumvarpið er jákvætt að mínum dómi og ég fagna því. Ef hv. þingmaður gæti farið aðeins nánar út í það sem hann var að ræða um, hvernig þessari ávöxtun ætti að vera háttað erlendis. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur t.d. ágæta þekkingu á norska olíusjóðnum og hefur búið í Noregi og þekkir það samfélag ágætlega. Norðmenn hafa verið yfirleitt frekar íhaldssamir í fjármálum, held ég, og þekktir fyrir sparsemi og ráðdeildarsemi í fjármálum. Þekkir hv. þingmaður t.d. hvaða reglur gilda, bara örstutt, varðandi norska olíusjóðinn og með hvaða hætti hann ávaxtar fé sitt erlendis? Hann ávaxtar allt erlendis, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns. Ég tek að mörgu leyti undir það sem hv. þingmaður sagði, að það væri hugsanlega ágætt að vera með einhverjar hugmyndir um með hvaða hætti þeir ráðstafa sínum ávöxtunum erlendis, eins og hv. þingmaður nefndi, hvort það er í dollurum, hvort það er í hrávöru o.s.frv. Ef hv. þingmaður gæti farið aðeins nánar yfir þetta þá væri það mjög fróðlegt og sérstaklega með tilliti til norska olíusjóðsins.