Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[11:38]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi mínu til laga um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Frumvarpið er flutt öðru sinni en ég mælti fyrir því síðast þann 20. janúar á þessu ári. Það sem gerir það áhugavert er að miklar vendingar hafa orðið síðan þá með innrás Rússa í Úkraínu og það hefur fjölgað verulega í þeim hópi sem þessi lagabreyting mun hafa áhrif á. Í örstuttu máli þá snýst frumvarpið um að veita fólki sem hefur fengið leyfi til dvalar á Íslandi leyfi til að stunda atvinnu sömuleiðis. Sú er nefnilega ekki staðan í dag. Samkvæmt íslenskum lögum þurfa útlendingar, aðrir en ríkisborgarar EES- og EFTA-ríkja, sem hyggjast dvelja á Íslandi lengur en í þrjá mánuði að fá útgefið sérstakt dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun. Ríkisborgarar EES- og EFTA-ríkja þurfa ekki sérstakt leyfi til að dvelja hér á landi en þurfa að skrá sig hjá þjóðskrá ef þeir hyggjast dvelja hér lengur en í þrjá mánuði.

Ákveðin skilyrði eru fyrir veitingu dvalarleyfis sem velta á því hvers lags dvalarleyfi er sótt um. Ákveðin grunnskilyrði gilda um flest dvalarleyfi og svo eru önnur sérstök skilyrði sem gilda um hvert dvalarleyfi fyrir sig. Til að skýra þetta aðeins nánar ætla ég að fara í stuttu máli yfir inntak þeirra dvalarleyfa sem eru í boði samkvæmt íslenskum lögum. Öll dvalarleyfi eru tímabundin til að byrja með en sum þeirra, ekki öll, leiða af sér rétt til ótímabundins dvalarleyfis eftir tiltekinn búsetutíma og að ströngum skilyrðum uppfylltum. Tilgangur umsækjenda með dvöl hér á landi ræður tegund dvalarleyfis sem viðkomandi getur fengið. Til eru dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Þar er fjölskylda reyndar skilgreind á mjög þröngan hátt þar sem uppkomin börn þín eru ekki fjölskylda þín, en það er önnur saga. Aðeins tiltekin dvalarleyfi leiða af sér rétt til fjölskyldusameiningar en þá er það maki Íslendings eða útlendings sem er með dvalarleyfi hér á landi, börn undir 18 ára aldri og foreldrar 67 ára og eldri. Börn yfir 18 ára aldri eru þannig ekki fjölskylda þín og ekki heldur foreldrar þínir fyrr en þeir eru orðnir mjög aldraðir. Þá eru tiltekin dvalarleyfi veitt vegna atvinnuþátttöku. Það eru einkum tvær tegundir; annars vegar vegna skorts á vinnuafli sem veltur fyrst og fremst á stöðunni á vinnumarkaði hér á landi og því starfssviði sem starfsmaðurinn, sem sótt er um dvalarleyfi vegna, er á og það veltur líka á því að viðkomandi hafi vinnuveitanda sem er reiðubúinn að fara í gegnum það ferli með umsækjanda. Vinnuveitandi þarf að sýna fram á, fyrir slíkt dvalarleyfi, að hann finni ekki starfskrafta í starfið á öllu EES-svæðinu. Hitt dvalarleyfið vegna atvinnuþátttöku er á grundvelli starfs sem krefst sérþekkingar. Bæði þessi dvalarleyfi gera kröfu um að viðkomandi sé kominn með vinnu og sæki um dvalarleyfi áður en hann kemur til landsins. Það er almenn regla, það eru ákveðnar undantekningar á því. Fyrir þessum leyfum eru ströng skilyrði sem erfitt getur verið að uppfylla, sérstaklega fyrir fólk sem er ekki með margra ára háskólamenntun að baki eða sérhæfingu. Þá eru til dvalarleyfi vegna náms, vegna vistráðningar eða au-pair, eins og við þekkjum það kannski frekar, fyrir sjálfboðaliða, trúboða, vegna tímabundinnar vinnudvalar fyrir ungt fólk og annað. Þetta eru dvalarleyfi sem að jafnaði veita ekki rétt til ótímabundinnar dvalar að endingu.

Svo er það annað þeirra dvalarleyfa sem við tölum um í þessu frumvarpi en það er dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Ég ætla ekki að fara í löngu máli yfir það hvað það þýðir en það hefur verið útfært og skilgreint einnig nokkuð þröngt með reglugerð. Veiting dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sem er hitt dvalarleyfið sem frumvarp mitt nær yfir, kemur aðeins til álita við efnislega meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem hefur þá í rauninni verið synjað. Þegar einstaklingur kemur til Íslands og sækir um alþjóðlega vernd, um hæli, er skoðaður grundvöllur fyrir þrenns konar dvalarleyfi. Það er í fyrsta lagi staða flóttamanns en sumir einstaklingar eru að flýja persónulegar ofsóknir af tilteknum ástæðum í heimaríkjum og uppfylla skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Svo er það dvalarleyfi sem kallað er viðbótarvernd í dag, sem er evrópskt hugtak og var í rauninni fundið upp til að ná yfir fólk sem er að flýja almennt hættuástand í heimaríki, svo sem stríð eða annars konar hremmingar. Það er nefnilega svo skondið og kemur mörgum á óvart að fólk sem er að flýja stríð og bara stríð, ekki persónulegar ofsóknir, er ekki flóttamenn samkvæmt skilgreiningunni í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. En í Evrópu á það rétt á svokallaðri viðbótarvernd sem m.a. hefur verið veitt flóttafólki frá Venesúela eins og hæstv. dómsmálaráðherra er tíðrætt um. Það er eitt af þeim dvalarleyfum sem skoðuð eru þegar sótt er um alþjóðlega vernd. Þriðja dvalarleyfið sem kemur til skoðunar þegar sótt er um alþjóðlega vernd er svokallað dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ég heyri það almennt á fólki þegar það heyrir þetta hugtak, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, af mannúðarástæðum, að þetta sé svolítið fínt dvalarleyfi. Þetta hljómar skýrt, hljómar eins og það sé mikils virði en staðan er sú að dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða gildir einungis í eitt ár í senn. Það er hægt að framlengja það í allt að tvö ár séu forsendur ekki breyttar. Og því fylgir ekki atvinnuleyfi.

Hvaða mannúðarástæður er verið að tala um? Það er nefnilega ekki verið að tala um flóttafólk. Þetta er 74. gr. laga um útlendinga, með leyfi forseta:

„Heimilt er að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt“ — 37. gr. er ákvæði sem gildir um flóttafólk — „geti hann sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til.“

Nánari útlistanir á þessu eru í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laga um útlendinga og sem fyrr segir þá eiga þessir einstaklingar rétt á tímabundnu dvalarleyfi til eins árs og því fylgir ekki leyfi til að stunda atvinnu. Þessu hef ég viljað breyta mjög lengi og lagði ég þetta frumvarp fram á síðasta þingi og talaði fyrir því sem fyrr segir áður en innrásin í Úkraínu átti sér stað. Þetta dvalarleyfi fékk flóttafólkið frá Úkraínu. Þau fengu ekki stöðu flóttafólks.

Þann 4. mars síðastliðinn lýsti dómsmálaráðherra yfir að hann hefði ákveðið að virkja 44. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, þegar í stað vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Var þessi ákvörðun tekin í samræmi við þá ákvörðun Evrópusambandsins að virkja sams konar úrræði með tilskipun nr. 2001/55, um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, en þetta kemur fram í yfirlýsingu dómsmálaráðherra, hefur gefið út tilkynningar um fjöldaflótta frá Úkraínu og áætlaði þá að allt að fjórar milljónir manna myndu flýja átökin bara á næstu dögum og vikum eftir að þessi tilkynning var gefin út. Því var ákveðið að beita þessu ákvæði um móttöku fólks vegna fjöldaflótta.

Dvalarleyfi fyrir flóttamenn er til fjögurra ára og því fylgir svokallað óbundið atvinnuleyfi. Það þýðir að fólk getur fundið sér hvaða vinnu sem því sýnist og það getur jafnvel stofnað fyrirtæki. Það þarf í rauninni ekki að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi. En fólk í þessari stöðu, fólk sem er að flýja stríð í Úkraínu, fær ekki stöðu flóttafólks eins og vera ber. Þau fá þetta svokallaða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Því fylgir ekki atvinnuleyfi og þurfa þessir einstaklingar því að sækja um það sérstaklega. Það er því nokkuð ljóst að fjöldinn sem þessi breyting í frumvarpinu mun hafa áhrif á hefur aukist um einhver þúsund.

En um hvað snýst þetta frumvarp? Með því er lagt til að fólk sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið, sem er mjög sjaldan beitt, geti farið strax og fundið sér vinnu eða stofnað fyrirtæki. Eins og lögin eru í dag þarf fólk sem fær dvalarleyfi af þessu tagi, þar á meðal flóttafólk frá Úkraínu, sérstaklega að sækja um atvinnuleyfi. Það er svokallað tímabundið atvinnuleyfi og það er bundið við tiltekið starf. Þau geta ekki sótt um almennt, opið atvinnuleyfi. Það sem einstaklingur þarf því að gera þegar hann er kominn með dvalarleyfi, er kominn með kennitölu, er að finna vinnu, hann þarf að finna vinnuveitanda sem er reiðubúinn að ráða hann í starf án þess að hann sé kominn með atvinnuleyfi — hann er kominn með kennitölu en ekkert atvinnuleyfi — og bíða í allt að þrjá mánuði eftir því að umsókn um atvinnuleyfi verði afgreidd. Umsóknin er lögð inn til Útlendingastofnunar og hún fer til Vinnumálastofnunar til umsagnar. Hún fer í ákveðið ferli. Þetta er gríðarlega mikil hindrun fyrir fólk sem er að leita sér að vinnu sem þegar á kannski ekki margra kosta völ í þessari stöðu. Atvinnuleyfið er háð samþykki Vinnumálastofnunar og það er talsvert ferli sem þarf að fara í gegnum. Það þarf að útvega tilskilin gögn og annað sem er byrði fyrir vinnuveitanda sem ákveður að veita einstaklingi vinnu án þess að hann sé kominn með þetta leyfi.

Núverandi fyrirkomulag leiðir til þess að hér á landi dvelja nú þegar þúsundir einstaklinga sem hafa fengið heimild til dvalar án þess að hafa heimild til þess að sjá fyrir sér með atvinnuþátttöku. Þetta er auðvitað það sem á góðri íslensku mætti kalla „lose-lose“, ég bið forseta afsökunar á enskuslettunni.

Breytingarnar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi mínu hafa verið lagðar fram áður og ekki bara af minni hálfu heldur einnig af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki betur en að til standi að leggja þær aftur fram í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, sem er áhugavert þar sem þau lög heyra ekki undir hans svið, en það á engu að síður að halda þessu þarna inni. Það frumvarp er þó þeim ágalla háð að þrátt fyrir þessa jákvæðu breytingu sem þar verður líklegast að finna, eins og sú sem hér er lögð til, hefur frumvarpið að geyma aðrar breytingar á lögum um útlendinga sem ágreiningur er um, svo ekki sé dýpra tekið í árinni að þessu sinni. Þær umdeildu tillögur sem þar koma fram hafa komið í veg fyrir að þær óumdeildu breytingar sem hér eru lagðar til nái fram að ganga. Og þar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að hafa þann háttinn á að blanda saman góðu og vondu sé ég ekki aðra lausn til að koma fram þessum brýnu breytingum, sem ég veit ekki betur en að algjör samstaða sé um hér á þinginu, en að leggja þær til sérstaklega. Það er að mér vitandi enginn ágreiningur um þessi ákvæði og ætti þetta frumvarp því með réttu að fljúga í gegnum þingið. Fólk í þessari stöðu þarf þá ekki lengur að þiggja bætur úr ríkissjóði sem það hefur enga þörf fyrir og engan áhuga á ef því yrði einfaldlega leyft að vinna. En það má það ekki.

Dvalarleyfi eru veitt á grundvelli laga um útlendinga. Atvinnuleyfi eru veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga. Reglur laganna sem ég er að leggja til að verði breytt í frumvarpinu eru með svofelldum hætti, með leyfi forseta, en þetta er um 1. gr. frumvarpsins:

„Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er í undantekningartilvikum heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi hafi útlendingi áður verið veitt bráðabirgðadvalarleyfi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals, dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals, dvalarleyfi fyrir foreldra, dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið eða dvalarleyfi á grundvelli lögmæts tilgangs samkvæmt lögum um útlendinga að uppfylltum skilyrðum …“

Þetta var sem sagt upptalning á þeim dvalarleyfum sem fylgir ekki sjálfkrafa atvinnuleyfi. Í frumvarpinu er lagt til að tilvísun í dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og á grundvelli sérstakra tengsla við landið verði felld brott úr þessari upptalningu. Sjálf myndi ég að sjálfsögðu vilja fella þetta allt saman brott þannig að dvalarleyfi hér á landi fylgdi ávallt sjálfkrafa leyfi til að stunda atvinnu en ég mun útskýra betur hér á eftir hvers vegna ég geng ekki lengra að þessu sinni.

Með 2. gr. frumvarpsins sem er breyting sem leiðir af hinni, þetta er mjög einfalt frumvarp, eru lagðar til breytingar á 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Samkvæmt núgildandi ákvæði þarf einstaklingur sem er með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að hafa atvinnuleyfi til þess að aðstandandi sem fær dvalarleyfi í gegnum fjölskyldusameiningu við hann geti fengið atvinnuleyfi. Einstaklingur með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á rétt á fjölskyldusameiningu við sína nánustu aðstandendur eins og lýst var hér að framan. Nánustu aðstandendur í þeim skilningi eru maki, börn undir 18 ára og foreldrar yfir 67 ára. Punktur. Enginn annar. Fái maki einstaklingins sem er með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða dvalarleyfi hér á grundvelli fjölskyldusameiningar við hann má hann samt ekki vinna nema makinn, á grundvelli hvers hann fær dvalarleyfi, hafi atvinnuleyfi fyrir. Þetta er svona keðjuverkun. Hér er því um að ræða efnislega breytingu þess efnis að ekki verði lengur gerð krafa um að aðstandandinn, sem rétturinn er byggður á, sé með atvinnuleyfi til þess að makinn geti fengið atvinnuleyfi. Er breytingin í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins þar sem ekki verður lengur krafa um að einstaklingurinn hafi atvinnuleyfi til að hann geti fengið fjölskyldusameiningu. Hann þarf ekki lengur atvinnuleyfi. Þetta eru afleiddar breytingar. Þetta var tilraun mín til að umorða og útskýra málsgrein sem spannar heila efnisgrein í greinargerð með frumvarpinu og ég hef verið beðin um að útskýra þar sem hún þykir óskiljanleg. Þetta er það sem átt er við og ég vona að þetta hafi verið skýrt.

Í 1. mgr. 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga eru tilgreindir þeir einstaklingar sem undanþegnir eru kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi. Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvæðið bætist tveir nýir stafliðir, g- og h-liður, þar sem kveðið verði á um útlendinga sem veitt hefur verið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið, svo sem hér hefur verið rakið.

Líkt og ég minntist á hér áðan myndi ég persónulega vilja ganga mun lengra. Ég myndi vilja taka fleiri flokka út og jafnvel ganga svo langt að heimila öllu fólki sem hér hefur fengið leyfi til dvalar að fara beint út á vinnumarkaðinn án þess að þurfa að fara í gegnum annað leyfaferli til að geta gert það. Ástæðan fyrir því að ekki er gengið lengra í frumvarpinu er sú að þar sem slíkar breytingar hafa verið þegar lagðar til af hálfu ríkisstjórnarinnar og munu koma hingað aftur fljótlega vænti ég þess að eining sé um þessar breytingar og við getum samþykkt frumvarpið með góðum meiri hluta hér á þingi.