Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir ræðuna og styð þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram. En það er líka alveg ljóst að ég styð frekari breytingar á útlendingalögunum og ramma utan um útlendingamál. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá eru þetta ákvæði sem hafa verið í lögunum, eða frumvarpinu sem lagt hefur verið fram og ég geri ráð fyrir því að svo verði líka þegar við ræðum nýtt frumvarp sem verður vonandi bara von bráðar.

Mér fannst líka áhugavert, og ég veit að hv. þingmaður þekkir þennan málaflokk vel, að í ræðunni fór hún yfir það sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson kallaði frumskóg. Ég er alveg sammála því, þetta er nefnilega mjög flókið og þetta er rosalega mikill frumskógur. Ég styð það að við reynum að einfalda málin og að sjálfsögðu þegar fólk hefur fengið leyfi til dvalar er auðvitað eðlilegt að það fái líka leyfi til að vinna og afla sér tekna. Ég held að það sé jákvætt og gott þegar fólk er í þeirri stöðu að geta gert það.

Ég ætla líka að fá að segja það, og það er mín skoðun, að ég myndi vilja sjá opnað enn frekar á dvalarleyfi og atvinnuréttindi til útlendinga. Ég hef komið fram með það í bæði ræðum og riti og hyggst líka leggja fram þingsályktunartillögu eða frumvarp þar að lútandi. Við erum að gera þetta til að mynda varðandi sérfræðingana og við höfum talað um það heillengi að okkur vanti erlendra sérfræðinga af ýmsum toga og við erum að reyna að gera atvinnulífinu og þeim sérfræðingum sem hingað vilja koma auðveldara fyrir hvað það varðar. En okkur vantar miklu meira en bara sérfræðinga. Okkur vantar bara vinnandi hendur. Okkur vantar alveg fólk á Íslandi, fólk sem vill koma, flytja til Íslands og taka þátt í íslensku samfélagi og vinna hér með okkur. Ég hef áhyggjur af því að ramminn okkar í kringum útlendinga, frumskógurinn sem var lýst hérna áðan, geri það að verkum að fólk sem vill flytja til Íslands og er ekki með vegabréf frá EES-landi — það á eiginlega engan annan kost en að koma hér inn og sækjast eftir vernd, eftir dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er í rauninni eina leiðin þannig að ég held að við þurfum líka að skoða það bara að opna meira á möguleika fólks til að flytja til Íslands, taka þátt í íslensku samfélagi og vinna hér.

Eins og ég sagði þá hyggst ég beita mér fyrir því að svo verði en tek undir þau sjónarmið sem hér eru sett fram. Ég ítreka jafnframt þá afstöðu mína að ég tel þörf á því að breyta enn frekar eða laga til í fleiri þáttum er lúta að málefnum útlendinga. Og eins og alþjóð veit orðið þá fórum við sem sitjum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í heimsókn til Noregs og Danmerkur og kynntum okkur aðstæður í þessum löndum. Það var m.a. gert til þess að reyna að leiða okkur svolítið saman í því hvernig þetta er þar, leiða kannski umræðuna út í heildstæðari og málefnalegra þætti og ég ber vonir til þess sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar að við munum ná breiðri sátt um breytingu á útlendingalögum á þessum vetri.