Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður kemur inn á það að jú, þetta er ekki breyting á útlendingalögum, þetta er breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægur punktur. Við erum oft að tala um þetta í einhvers konar sílóum. Þessi ferð okkar í allsherjar- og menntamálanefnd opnaði augu mín fyrir því að það er svo ofboðslega mikilvægt að við horfum á þetta heildstætt. Þar af leiðandi er ekki hægt að taka bara þann punkt út sem hér um ræðir og svo útlendinga sérstaklega. Ég held við þurfum að horfa á þetta heildstætt. Þetta er og á að vera hluti af stefnu okkar í útlendingamálum.

Ég held reyndar líka að við þurfum að fara að velta fyrir okkur búsetuúrræðum fyrir útlendinga sem eru núna hjá öðrum ráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þannig að ég segi bara: Þegar við ræðum um þennan málaflokk þá held ég að það sé skýrt að við þurfum skýrari stefnu í málaflokknum í heild sinni. Ég segi það að ég vil sjá opnað á enn frekari atvinnuréttindi útlendinga. En hvað nákvæmlega stendur í þessu frumvarpi sem mikil spenna er fyrir að lagt verði hér fram, ég ætla bara leyfa spennunni að lifa þangað til hv. þingmenn sjá frumvarpið, sem vonandi verður lagt fram fljótlega. Ég ítreka bara að ég vona innilega og er tilbúin að leggja mitt af mörkum til þess að við reynum að hafa hér málefnalega og góða umræðu um það frumvarp og önnur mál er snerta útlendinga, flóttamenn og fólk sem hingað vill koma því að ég held að samfélag okkar hreinlega kalli á það og ég vona að það takist.