Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður kemur inn á að dómsmálaráðherra vísi á félagsmálaráðherra og svo hefur félagsmálaráðherra vísað á dómsmálaráðherra. Svo erum við með menntamálaráðherra sem spilar líka stóra rullu í málefnum útlendinga því að við viljum auðvitað að þessi börn fái góða og gilda menntun. Þetta er nákvæmlega það sem ég er að tala um sem sýnir ákveðið flækjustig. Við þurfum að vera með heildstæða stefnu og það er einmitt þess vegna sem ríkisstjórnin kom á laggirnar ráðherranefnd um málefni útlendinga síðasta vor. Ég ber miklar væntingar til þess að bæði á vettvangi ráðherranna sjálfra og svo vettvangi þingsins náum við heildstæðri umræðu og nálgun á það hvernig við ætlum að koma að þessum málum. Vísanirnar milli ráðherra eru auðvitað mikið til vegna þess að þú þarft dvalarleyfi til að geta sótt um atvinnuréttindi og hér færðu ekki dvalarleyfi og þar af leiðandi ekki atvinnuréttindi nema þú sért búinn að fá atvinnu einhvers staðar. Þannig að þetta sýnir svolítið flækjustigið sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni. Ég held að við þurfum einmitt að reyna að brjóta þessa múra niður. (Forseti hringir.)

Ástæðan fyrir því að þetta ákvæði kom inn í frumvarpið síðasta vor frá hæstv. ráðherra er örugglega sérstaklega vegna þess að við höfum ekki verið að veita hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum í jafn miklum mæli (Forseti hringir.) eins og eftir að Úkraínustríðið brýst út. Þá gerum við það, nýtum þessa heimild til þess. Það er auðvitað sjálfsagt að leyfa því fólki sem er í þeim hópi, treystir sér til að vinna og vill fara á vinnumarkað að gera það. (Forseti hringir.) En það er líka mikilvægt að muna að það eru ekki allir sem koma úr slíkum aðstæðum sem hafa tök á því að fara út á vinnumarkaðinn.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ein mínúta er mjög stuttur tími.)