Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég ætla að vera ósammála því að umræðan sé ekki farin af stað. Það er auðvitað mikil umræða í samfélaginu öllu, í fréttamiðlum, hér á þinginu og víða um málefni útlendinga. Ég tel mjög mikilvægt að slík umræða sé tekin. Ég held reyndar líka að það sé mjög mikilvægt hvernig við tökum þá umræðu. Það er mikilvægt að ekki sé alið á fordómum í þeirri umræðu. Það er mikilvægt að rætt sé um málið út frá rökum en ekki eingöngu út frá tilfinningum. Ég hlakka til þeirrar umræðu.

Eins og ég og hv. þingmaður urðum áskynja, bæði í Noregi og Danmörku, þá virðist ekki vera jafn mikill hiti í pólitískri umræðu þar og það virðist ekki vera jafn mikill ágreiningur og verið hefur í þessum sal á síðustu árum. Það er mín von að við getum afgreitt frumvarp um útlendinga, breytingu á útlendingalögum, út í nokkuð breiðri sátt. Það færi ofboðslega vel á því ef við myndum ná að gera það. Það er alveg ljóst, held ég, í flestra (Forseti hringir.) augum að einhverjar breytingar þarf að gera. Við þurfum að ræða okkur saman inn á það hvaða breytingar við getum gert og það er skoðun mín að við eigum að horfa til Norðurlandanna í þeim efnum.