Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil bara byrja á því að lýsa fullum stuðningi við þetta mikilvæga mál og reyna að koma með smá sögulegt samhengi. Þetta mál er gulrótin sem stjórnarliðar hafa verið að reyna að dingla framan í þingið og þjóðina til að samþykkja allan hinn afganginn, skulum við segja, svo að ég noti nú ekki ljótara orð um þetta útlendingafrumvarp sem reynt hefur verið að koma í gegnum þingið trekk í trekk án árangurs, vegna þess að það er ómannúðlegt, vegna þess að það felur í sér óboðlegar breytingar á lögum sem voru samin í þverpólitískri sátt á sínum tíma. Það að hver dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum mæti hér með þetta frumvarp, með þeirri útlendingaandúð sem því fylgir, og sér í lagi andúð í garð flóttafólks, breytir því ekki að lögin sem fyrir eru eru ekki það slæm. Það eru hins vegar ýmsir annmarkar á framkvæmdinni sem litast, held ég, að stórum hluta af þessum sömu dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Þessi tvö atriði, að veita fólki atvinnuleyfi á grundvelli þess að hafa fengið hér dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, getum við afgreitt hér og nú án þess að taka áhættuna af því að hleypa útlendingafrumvarpinu hér inn í sal til atkvæðagreiðslu. Hvers vegna skyldi fólki vera svo annt um að bíða þangað til útlendingafrumvarpið kemur? Jú, vegna þess að þetta er gulrótin sem á að nota til að reyna að fá okkur til að samþykkja allt hitt ógeðið sem er í þessu frumvarpi.

Hér er einföld patentlausn sem einhverra hluta vegna var ekki hægt að samþykkja á síðustu önn, sem einhverra hluta vegna er ekki löngu búið að ganga frá þótt þetta sé einfalt og auðskilið mál sem allir virðast vera sammála um að þurfi að ganga í. Það er vegna þess að það á að reyna að nota þetta sem gulrót, reyna að misnota þetta til að koma útlendingafrumvarpinu í gegnum þingið með öllum sínum mannvonskuákvæðum. En fyrst eigum við að ræða útlendingafrumvarpið, þá kannski getum við pælt aðeins í þessu frumvarpi. Fyrst eigum við að fara í stefnumótun, heildstæða stefnumótun um málefni útlendinga. Þá kannski getum við rætt þetta ákvæði. Fyrst, fyrst, fyrst. En við skulum endilega drífa í því að samþykkja þetta útlendingafrumvarp áður en við förum í stefnumótun og áður en við samþykkjum að flóttafólk frá Úkraínu geti fengið að vinna hérna frjálst hjá hverjum sem því sýnist, hjá hverjum þeim sem vill ráða það án þess að fara í eitthvert gígantískt skrifræðisferli til að koma því í kring. Þetta er alls ekki flókið mál, það væri hægt að samþykkja hér og nú og þeir þingmenn sem tala alltaf um að þeir vilji víkka út getu fólks til að koma hingað á öðrum grundvelli en í gegnum hæliskerfið hafa verið í ríkisstjórn í fleiri ár án þess að hafa nokkru sinni gert það. Hér er tækifæri til að víkka út atvinnuréttindi fólks sem hefur nú þegar fengið dvalarleyfi á Íslandi en samt á það að bíða.

Þessi umræða kemur alltaf upp: Við þurfum að herða að þessu hælisleitendakerfi, það er verið að misnota það, það er vont fólk sem selur vegabréf og kemur illa fram við börn og við þurfum að þrengja að réttindum alls flóttafólks á Íslandi til að koma í veg fyrir alla þessa hræðilegu hluti, svo er það annað að fólk er að misnota þetta kerfi út af því að það er að koma hingað og það þarf í raun og veru ekki vernd. Það sem við þurfum að gera, þurfum í alvörunni að gera, er að víkka út heimildir fólks til að koma hingað til lands án þess að fara í gegnum hælisleitendakerfið. En það bólar ekkert á þessum breytingum og hefur ekki gert allan þann tíma sem þessi umræða hefur verið í gangi. Þetta er bara fagurgali, virðulegi forseti. Þetta er hundaflauta.

Þetta er til að afvegaleiða okkur frá umræðuefninu sjálfu sem er að það stendur til að skerða stórlega réttindi flóttafólks á Íslandi. Það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar, ríkisstjórnarinnar þar á undan, ríkisstjórnarinnar, ja, kannski ekki alveg hundrað prósent á undan því, en svo þeirrar sem var á undan henni líka, og alltaf hefur þeim ríkisstjórnum verið veitt ákveðið viðmót af þinginu og hingað til hefur verið staðinn vörður um þá þverpólitísku sátt sem náðist um útlendingalögin árið 2016. Það að útvíkka leyfi fólks til að koma hingað til lands til að sækja sér atvinnu án þess að fara í gegnum hælisleitendakerfið, byggt á því einfaldlega að það vill koma hingað, setjast hér að, hjálpa okkur við að byggja upp samfélagið okkar, taka þátt í atvinnulífinu okkar — hvar eru þessar breytingar, virðulegi forseti? Þetta er bara notað til að dangla framan í fólk til að forðast að ræða það sem er raunverulega verið að gera. Það er verið að skerða og brjóta á réttindum flóttafólks með fyrirætluðum breytingum á lögum um útlendinga.

Eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir kom inn á áðan heyra þær breytingar sem við erum að ræða hér ekki einu sinni undir málefnasvið dómsmálaráðherra en samt er einhvern veginn búið að skeyta þeim við útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra. Af hverju? Af hverju ætli það sé? Jú, það er vegna þess að þessi breyting er gulrót. Hún er eitthvað sem við erum öll sammála um að þurfi að gera og þá er hægt að mæta í hvert útvarps- og sjónvarpsviðtalið á fætur öðru og segja: Við viljum svo mikið að flóttafólk frá Úkraínu geti strax fengið atvinnuleyfi, við viljum það svo mikið en þingið leyfir okkur það ekki, vonda, vonda þingið. Þetta er orðin mjög þreytt og gömul tugga, virðulegi forseti. Við getum breytt þessu með þessu frumvarpi. Við höfðum tækifæri til þess á síðustu önn, bæði í formi þessa frumvarps og í formi breytingartillögu sem einhverra hluta vegna var ekki bara hægt að samþykkja einn, tveir og þrír.

Síðan er það auðvitað að það var sjálfstæð ákvörðun hjá ráðherra dómsmála á Íslandi að veita flóttafólki frá Úkraínu ekki þá fullu vernd sem flóttafólk frá Úkraínu á rétt á. Það að virkja þetta hópflóttaákvæði fól sjálfkrafa í sér að það er hægt að frysta umsóknir flóttafólks frá Úkraínu um þá fullu vernd sem það á rétt á í allt að þrjú ár á meðan það nýtur þessarar verri verndar sem það fékk, sem er þetta dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna, sem ekki fylgir atvinnuleyfi. Flóttafólk frá Úkraínu á rétt á viðbótarvernd sem jafngildir stöðu flóttamanns, þ.e. atvinnuleyfi, dvalarleyfi í fjögur ár, og þetta telur allt til réttinda fólks til að fá að vera hérna áfram að þessum árum liðnum líka, sem, ef ég man þetta rétt, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða gerir ekki. Það var tekin pólitísk ákvörðun um að veita flóttafólki frá Úkraínu síðri vernd en það á rétt á samkvæmt lögum. En síðan er verið að segja að þingið standi í vegi fyrir því að flóttafólk frá Úkraínu fái atvinnuleyfi. Þetta er auðvitað ekki hægt, virðulegi forseti.

Það var talað um frumskóg hérna áðan. Ég hef tekið eftir því að það er mikið gert í því að notfæra sér vísvitandi þennan frumskóg til að villa um fyrir fólki, til þess að dylgja, til þess að rugla í fólki um nákvæmlega hver staðan er hverju sinni gagnvart hverjum. Þetta er endalaust. Það er endalaus vinna að leiðrétta þetta aftur og aftur og sér í lagi gríðarlega þreytandi að þurfa alltaf að vera að leiðrétta dómsmálaráðherra um einhverja þvælu sem hann lætur út úr sér í fjölmiðlum. Það er orðið mjög þreytt, virðulegi forseti. Ég vildi óska að við værum með aðeins betri dómsmálaráðherra sem léti ekki hafa eftir sér hvert bullið á fætur öðru. Þá værum við kannski komin lengra, þá værum við kannski með yfirvegaðri umræðu um málefni útlendinga eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru alltaf að kalla eftir. Yfirveguð umræða felur í sér, í hlutarins eðli, að hún þurfi að vera byggð á staðreyndum og gögnum og hinu eina sanna og rétta. Hvernig eigum við að vera yfirveguð þegar við erum alltaf að leiðrétta eitthvert bull? Það verður mjög þreytandi til lengdar, virðulegi forseti.

Þetta frumvarp er mjög einfalt. Við þurfum ekki að bíða eftir einhverju öðru frumvarpi. Við þurfum ekki að bíða eftir einhverri heildstæðri stefnumótun. Við getum bara drifið þetta í gegn og haft gríðarlega mikilvæg og jákvæð áhrif á líf þúsunda á Íslandi akkúrat núna án þess að kaupa neitt annað með í sekknum. Ég hvet okkur til að klára þetta sem fyrst.