Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:10]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég tek bara undir það sem hv. þingmaður talaði um, maður fær kökk í hálsinn og líður ekki vel yfir því að sjá og heyra fréttir af börnum okkar og ungmennum í samfélaginu sem líður það illa að þau grípa til örþrifaráða. Maður hugsar líka til þeirra sem eru gerendur að ýmsum ofbeldisverkum, börn og ungmenni grípa ekki til þessa nema vegna einhverrar vanlíðunar þannig að ég tek undir það með hv. þingmanni að við verðum að vinna bug á þessari staðreynd í okkar ágæta samfélagi með öllum tiltækum ráðum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og til þess að ég myndi ekki gleyma einum né neinum mikilvægum aðila sem mér finnst mikilvægt að komi að þessari vinnu þá var notað orðalagið „hlutaðeigandi hagaðilum“ og mér finnst mjög mikilvægt að við fáum inn félagasamtök eins og Barnaheill eða Heimili og skóla og önnur slík samtök því að til að ná árangri í svona umfangsmiklu máli þurfum við öll að taka höndum saman. Við þurfum á að halda öllum slagkrafti þeirra sem þekkja til, kunna að vinna með börn og hafa hagsmuni þeirra fyrir brjósti inn í þetta verkefni. Það er mjög mikilvægt að það verði tekið upp í þeirri nefnd þingsins sem fær málið til umfjöllunar.