Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

aðkoma öryrkja og ellilífeyrisþega að kjaraviðræðum.

334. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aðkomu öryrkja og ellilífeyrisþega að kjaraviðræðum ásamt flokksfélögum mínum í Flokki fólksins, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Jakobi Frímanni Magnússyni, Tómasi A. Tómassyni og Wilhelm Wessman. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja aðkomu heildarsamtaka öryrkja og ellilífeyrisþega að viðræðum ríkisstjórnarinnar og fulltrúa vinnuveitenda og launþega um komandi kjarasamninga og tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í viðræðunum ásamt því að ríkisstjórnin taki rökstudda afstöðu til þeirra sjónarmiða áður en viðræðunum lýkur.“

Tillaga þessa efnis var áður flutt á síðasta þingi, á 152. löggjafarþingi.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að reifa aðeins betur. Í fyrsta lagi ályktar Alþingi með viljayfirlýsingu sinni að fela ríkisstjórn að tryggja aðkomu heildarsamtaka öryrkja og aldraða að viðræðum ríkisstjórnarinnar og fulltrúa vinnumarkaðarins. Um mikilvæga aðkomu er að ræða þar sem öryrkjar og aldraðir hafa ekki verkfallsrétt í dag og mjög mikilvægt að þau fái að koma sjónarmiðum sínum að í þeim mikilvægu viðræðum sem munu að öllum líkindum eiga sér stað á lokaspretti í kjarasamningsviðræðum.

Í öðru lagi ber ríkisstjórninni að tryggja að þessi aðildarsamtök fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að í viðræðunum. Í þriðja lagi felur yfirlýsingin það í sér að ríkisstjórnin taki rökstudda afstöðu til þeirra sjónarmiða áður en viðræðum lýkur, þ.e. að sjónarmiðin fái að ganga fram og komist að í viðræðunum og ríkisstjórnin taki rökstudda afstöðu til þeirra.

Nú eru fulltrúar vinnuveitenda og launþega í þann mund að hefja viðræður um gerð kjarasamninga. Stærsti einstaki kjarasamningurinn, lífskjarasamningurinn, rennur út 1. nóvember nk. Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að ríkisstjórnin hafi aðkomu að kjaraviðræðum þegar um er að ræða víðfeðma samninga milli fjölda samtaka, bæði launþega og vinnuveitenda. Aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð lífskjarasamninganna árið 2019 er aðeins eitt dæmi af mörgum. Þá gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að ráðist yrði í ýmsar aðgerðir að fjárhæð 80 milljarða kr. á gildistíma lífskjarasamninganna til að styðja við markmið samninganna um stöðugleika og bætt lífskjör launafólks.

Nauðsynlegt er að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eigi sæti við borðið í samningaviðræðum ríkis, launþega og vinnuveitenda um kaup og kjör í landinu. Sagan sýnir að í slíkum viðræðum eru iðulega teknar veigamiklar ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna sem varða hagsmuni allra landsmanna og teknar veigamiklar ákvarðanir um ráðstöfun þeirra opinberu fjármuna sem varða hagsmuni þjóðarinnar í heild og alls samfélagsins, þar á meðal öryrkja og ellilífeyrisþega. Því ber ríkinu að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái að koma sjónarmiðum á framfæri í þeim viðræðum og einnig að taka rökstudda afstöðu til sjónarmiða sem þau leggja fram við samningaborðið í þessum þríhliða viðræðum sem munu að öllum líkindum eiga sér stað á lokaspretti samningaviðræðna.

Í 69. gr. laga um almannatryggingar segir að bætur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þrátt fyrir þau skýru lagafyrirmæli hafa fjárhæðir almannatrygginga ekki fylgt launaþróun undanfarin ár og nú mælist uppsöfnuð kjaragliðnun í tugum prósenta.

Öryrkjar og ellilífeyrisþegar geta ekki nýtt sér verkfallsrétt til að krefjast kjarabóta. Það hefur tvímælalaust áhrif á þróun kjara þeirra, enda hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn svo gott sem virt mannréttindi þeirra að vettugi.

Það er afar mikilvægt að sátt náist, ekki aðeins milli fulltrúa vinnumarkaðarins og ríkisins heldur einnig lífeyrisþega. Slík sátt myndi skapa grundvöll fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu.

Ég vil ítreka að ástæðan fyrir þessu er sú að hér er um stór heildarsamtök öryrkja og ellilífeyrisþega að ræða og það er grundvallaratriði að þau fái að koma að þessum viðræðum, svokölluðum þríhliða viðræðum, sem munu að öllum líkindum leiða til heildarsamkomulags varðandi kjarasamningsviðræðurnar. Ber að endurtaka að öryrkjar og ellilífeyrisþegar geta ekki nýtt sér verkfallsrétt til að krefjast kjarabóta. Þessi hópur stendur það veikt að vígi að hann hefur orðið fyrir kjaragliðnun undanfarin ár. Það er m.a. vegna þess að það er svo auðvelt að líta fram hjá þeim í kjarasamingsviðræðunum. Með samþykkt þessarar tillögu myndi Alþingi lýsa yfir vilja sínum til þess, og fela ríkisstjórninni það, að tryggja þessa aðkomu sem er mjög mikilvæg. Bara aðkoman sjálf og það að tekin sé rökstudd afstaða til sjónarmiða þessa hóps mun skapa enn meiri sátt á vinnumarkaðinum og í samfélaginu í heild. Ekki síst í samfélaginu í heild og það er grundvallaratriði.

Ég vísa málinu til nefndar og vona að það fá góða meðferð þar og að umsagnir berist eins og lög gera ráð fyrir.