153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:03]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að byrja á því að segja að mér finnst þessi umræða sem hæstv. ráðherra er hér að leggja á borð mótast af tortryggni gagnvart þeim sem þurfa á hjálp okkar sem þjóðar að halda. Talað er um glæpamenn og því blandað saman við fólk í neyð. Það er talað um hlutfallslega aukinn fjölda hér miðað við aðrar þjóðir. En mig langar að spyrja: Hverju breytir það að við séum að taka á móti hlutfallslega fleirum en aðrir? Skiptir það einhverju máli? Flóttamaður er að leita sér að vernd og hann leitar til lands, hann er ekkert að horfa á hvort það séu hlutfallslega fleiri flóttamenn sem mæta hérna á svæðið. Hverju breytir það? Af hverju er okkur síðan sýnt línurit sem gildir bara frá 2019? Af hverju er þá ekki bara farið aftur til 2010?