153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þróun skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi, það er miklu víðtækara en sem snýr að mögulegri misnotkun á flóttamönnum sem eru að koma til landsins. En það eru varnaðarorð sem við höfum fengið frá lögreglunni. Það eru varnaðarorð sem við höfum fengið frá lögregluyfirvöldum í Evrópu, eins og ég hef áður rakið, og við þurfum auðvitað að horfa til þess. Ég hef áhyggjur af misnotkun á þessu fólki sem er í þessari erfiðu stöðu. (Gripið fram í.) Ég vil ná utan um það. Við höfum þegar gripið til aukinna ráðstafana í athugun á þessum málum í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Almennt séð er hann að skoða þessi mál sérstaklega, en við erum líka að leggja fram mjög viðamikið átak í aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem tekur til þessara þátta og annarra. Þess mun vonandi sjá stað í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum sem þar koma fram. Að mínu mati er það mikil ábyrgð okkar allra að stuðla að því að við getum eflt lögregluna á þessu sviði sem öðrum.