153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:18]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af því að hér kemur hv. þm. Helga Vala Helgadóttir upp og kvartar yfir svörum hæstv. ráðherra og fer yfir það til hvers þessi orðaskipti eiga sér stað, að þarna sé ráðherra með framsögu sem þingmenn geta spurt út í, þá langaði mig til að koma hingað upp, af því að ég hlustaði með eftirtekt á þessi orðaskipti hv. þingmanns og hæstv. ráðherra og velti einmitt fyrir mér hvort hv. þingmaður væri að beina orðum sínum að hæstv. ráðherra út af því sem hefði komið fram í máli hans hér. Ég grúskaði í greinargerðinni og hugsaði til baka um framsöguna og gat ekki heyrt að spurningar hv. þingmanns hefðu átt við hæstv. ráðherra eða mál hans hér. Mig langaði því að leggja það í púkkið að áður en við förum upp og vöndum um fyrir öðrum ættum við að hugsa um hvort við höfum notað púltið í réttum tilgangi.