153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og þeirri nálgun sem hún var með á málið. Það sem við erum að upplifa núna er dæmigert málþóf eins og það er kallað í þessu þingi og hægt að vitna til síðasta vetrar í því að skilvirkni þessa þings er náttúrlega með eindæmum léleg þegar kemur að afgreiðslu mála. Við sjáum að það á að fara að beita einhverju slíku hér núna, fólk vill forðast það að ræða kjarna málsins sem er frumvarpið sem liggur hér fyrir, en vill fara að ræða húsnæðismál, félagslega þjónustu og einhverja slíka hluti. Þetta frumvarp fjallar ekkert um það. Það er frumvarp til útlendingalaga sem dómsmálaráðherra leggur fram. Ef fólk vill eiga orðastað við félagsmálaráðherra um þau félagslegu úrræði sem hann hefur með að gera við móttöku útlendinga þá á að gera það á öðrum vettvangi, virðulegur forseti. Ég held að það sé ástæða fyrir hæstv. forseta til að taka smá kennslustund með þingmönnum Pírata hér og nokkrum öðrum í þeim málum sem snúa að þingsköpum Alþingis og umræðu hér á þingi.