153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég neyðist kannski til að snúa þessu við og spyrja hæstv. ráðherra núna, vegna þess að ég nefndi í minni ræðu dæmi sem geta verið sértæk en geta hlaupið á fjölda manns, tugum manns, sem hafa fengið endanlega neitun, synjun, en er bara tæknilega ómögulegt að vísa eitthvað burtu. Það getur verið fólk frá Íran t.d., ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra fari að vísa fólki til Íran núna. Annaðhvort þarf þetta fólk að finna sér skjól einhvers staðar og verða svona neðanjarðarþegnar eða hluti af okkar samfélagi eða sveitarfélögin geta vonandi veitt því eitthvert skjól. En sveitarfélögin eru ekki sérstaklega aflögufær.