153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að sveitarfélögin eru ekki aflögufær. Það er nú hin alvarlega staða sem við glímum við, þau eru bara ekki í stakk búin með sína innviði til að taka á móti þeim flóttamönnum sem hingað eru að koma í dag. Það er auðvitað m.a. þess vegna sem er mikilvægt að grípa til ráðstafana.

En, virðulegur forseti, það er eiginlega lágmarkskrafa, ég tala nú ekki um af formönnum stjórnmálaflokka, að þeir kynni sér þau mál sem eru hér til umfjöllunar, hafi a.m.k. lesið frumvarpið sem þeir standa hér upp til að gagnrýna svo brýnt eins og hv. þm. Logi Einarsson gerir. Það er einmitt undanþáguákvæði í þessu frumvarpi gagnvart því fólki sem hann var að lýsa hér, fólki sem er í samvinnu við yfirvöld um að fara úr landi en ef einhver tæknileg atriði, og ég kom sérstaklega inn á þetta í ræðu minni, hindra það, til að mynda að það sé ekki hægt að útvega ferðapappíra eða slíkt, þá fellur þessi þjónusta ekki niður, þá heldur hún áfram. Það er eiginlega lágmarkskrafa að menn kynni sér aðeins þau mál sem þeir eru að tala um og það hefur hv. þingmaður greinilega ekki gert.