153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það væri ýmislegt sem við gætum gert til framtíðar sem myndi kannski minnka líkurnar á því að við lentum í þeim vandamálum að við misstum allt úr böndunum, m.a. ef hv. þingmaður myndi leggjast á árar með okkur af meiri krafti í loftslagsmálum og því að auka jöfnuð og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Mér finnst það nú býsna ódýr lausn og ódýrt svar hjá hv. þingmanni þegar hann segir að við þær aðstæður að við treystum okkur ekki til að taka við fleirum frá Úkraínu þá myndum við leita til nágrannalanda Úkraínu. (SDG: Ég er að spyrja þig.)Á þá hv. þingmaður við Moldóvu, á hann við Úkraínu, sem eru fátæk lönd og eru að taka á móti hátt í, ég veit það ekki, 20–25% af eigin þjóð inn fyrir sín landamæri? Ég segi fullum fetum að enn sem komið er getum við gert betur og við getum staðið okkur betur og við skulum gera það. (SDG: Já, við skulum gera það.)