153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að láta hjá líða að leiðrétta hér ákveðinn misskilning sem er hjá málþófskór Pírata í þessari umræðu, sem forðast hér efnislega umræðu um málið eins lengi og þau geta. Það virðist vera málefnaþurrð í herbúðum þeirra þegar kemur að meginefni þessa frumvarps. Það sem þau gagnrýna hér að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra komi ekki til að ræða eru ívilnandi atriði í þessu frumvarpi sem taka til laga um atvinnuleyfi þeirra sem hljóta vernd. Það er einhver misskilningur í gangi hér hjá einhverjum hv. þingmönnum um að það sé einhver málaflokkur að færast yfir til dómsmálaráðuneytisins. Hér er eingöngu verið að ívilna þeim sem hlotið hafa vernd um að fá atvinnuleyfi; þeir þurfa ekki að sækja um það sérstaklega og þurfa ekki að fara í sérstaka málsmeðferð. Ég fullvissa hv. þingmenn um að um þetta hefur verið mikið samráð milli ráðuneytanna, fullur einhugur milli ráðherranna og í ríkisstjórn, alveg sérstaklega um þetta ívilnandi atriði fyrir flóttamenn.