153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er nú ekki að sækja um inngöngu í málþófskór Pírata heldur frekar svona að syngja einhvern Viðreisnareinsöng mögulega. En mig langar samt að taka undir þessa beiðni og lýsa undrun minni á því að málum skuli komið þannig fyrir að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra eigi ekki heimangengt þegar við erum að ræða þetta mál vegna þess að alveg sama hvað hæstv. dómsmálaráðherra segir, staðreyndin er sú að þessir tveir ráðherrar hafa talað út og suður í fjölmiðlum um nákvæmlega þetta mál. Ég get ekki tekið afstöðu til þess hér hvort annar þeirra fer með rétt mál og hinn rangt, hvort báðir hafi eitthvað til síns máls eða hvort báðir séu mögulega alveg í ruglinu. En það er þess vegna sem það væri mikilvægt að hafa hæstv. ráðherra hér þegar við ræðum þetta mál vegna þess að það hlýtur að skipta máli þegar málið fer síðan til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að nefndarmenn þar, sem og þingmenn allir, séu með eins rétta mynd af afstöðu ráðherranna tveggja til málsins og hægt er. Sú mynd er mjög óljós eins og staðan er núna.